Skoðun

Hug­leiðing um lista­manna­laun I

Þórhallur Guðmundsson skrifar

Stjórnsýsla listamannalauna

Rannsóknarmiðstöð Íslands, RANNÍS, fer með stjórnsýsluákvarðanir er varða listamannalaun á Íslandi. Rannís heyrir undir háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og starfar á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003. Tilgangur stofnunarinnar er að treysta stoðir íslensks samfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu. Rannís hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar á Íslandi, auk samstarfsáætlana ESB og norrænna áætlana sem veita styrki til samstarfsverkefna, náms og þjálfunar. Rannís sér um stjórnsýslu listamannalauna. Um listamannalaun og hlutverk þeirra er svo fjallað um í lögum nr.57/2009.

Stofnunin Rannís hefur sett sér gildi til að vinna eftir. Þau eru:

  • Áhrif: Við höfum áhrif til góðs í samfélaginu með því að styðja við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu.
  • Fagmennska: Við byggjum starfsemi okkar á þekkingu og faglegri umsýslu.
  • Samstarf: Við vinnum öll saman að því að tryggja viðskiptavinum okkar bestu mögulegu þjónustu. Í samstarfi okkar sýnum við virðingu, erum jákvæð og lausnamiðuð.

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 fjalla um það hvernig ákvarðanataka í stjórnsýslu skuli hagað og hvers vegna. Þetta er leiðarvísir fyrir sérfræðinga hjá hinu opinbera, á báðum stjórnsýslustigum; ríkis og sveitarfélaga. Ákvörðunartaka sérfræðinga á báðum stjórnsýslustigum má kæra.

Í 21.gr laga nr. 37/1993 er fjallað um hvenær eigi að veita rökstuðning fyrir stjórnsýsluákvörðunum. Þar kemur fram að ekki þurfi að veita rökstuðning fyrir veitingu eða synjun á styrkjum til vísinda, menningar eða lista.

Gagnrýni listafólks á úthlutun Listamannalauna fyrir árið 2025

Síðustu daga hefur Rannís verið gagnrýnt af listafólki vegna ákveðinna þátta við veitingu síðustu listamannalauna. Gangrýnin hefur beinst að skort á gagnsæi við ákvörðun og að úthlutunarnefndir listamannalauna hafi synjað mikið að landsþekktu og oft verðlaunuðu listafólki um laun, og svo gagnvart ákvörðunartexta úthlutunanefnda. Þá hefur gagnrýnin líka beinst að skorti á rökstuðningi vegna synjunar.

Mikið af listafólki leitar á ýmsum stigum umsóknarferlisins til sérfæðinga vegna þess að það er þess meðvitað að því fleiri sem koma að umsókninni, því líklegri er að hún hljóti náð nefndarinnar. Ég kom að nokkrum umsóknum í ár, las þær yfir, kom með tillögur að úrbótum, lagaði fjárhags- og verkáætlanir. Bar umsóknirnar saman við reglugerð og leiðbeiningar Rannís, áherslur stjórnar Listamannalauna fyrir árið 2025 og síðan en ekki síst, mats kvarða sem Rannís fylgir. Þá horfði ég nokkrum sinnum á leiðbeiningamyndbandið sem Rannís lét útbúa og á að auðvelda listafólki að sækja um og fá styrki. Ég taldi allar umsóknir sem ég las yfir mjög góðar, markvissar og uppfylla öll skilyrði sem koma fram á mats kvarða RANNÍS.

Ég var því undrandi yfir því að margt landsþekkt listafólk fékk synjun, þrátt fyrir faglegar umsóknir og farsælan feril. Í kjölfarið óskaði ég eftir því í hópnum Menningarátökin á Facebook að listafólk sem hafði fengið synjun, sendi mér umsagnartexta synjunarinnar. Viðbrögðin voru mjög góð. Ég fékk ekki bara synjunartextann heldur undantekningarlaust líka umsóknir og fylgiskjöl. Umsóknir sem voru ítarlegar, oft upp á tugi blaðsíðna samanlagt með fylgiskjölum. Bakvið flestar þessara umsóknir lá margra mánaða hugsun og vinna.

Áhugaverðast af öllu er að ég fékk frá listafólki áhugaverð bréf með vangaveltum um hlutverk og eðli listamannalauna og afkomuvanda listafólks. Eitt áttu öll bréfin sameiginlegt, listafólkið var allt mjög ósátt við hvernig synjanir voru orðaðar. Það vakna ýmsar spurningar um t.d. hvort að það sé hlutverk stjórnvalds að dæma gæði umsókna með orðum eins og “um margt áhugaverður listamaður en mjög mistækur” eða “skortir tilfinningalega dýpt.” Sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt 21.gr laga nr.37/1993,stjórnsýslulaga, er það skýrt tekið fram að ekki þurfi að veita umsögn vegna synjunar á styrkjum til lista- og vísindafólks. Því sátu umsækjendur uppi með texta sem var upp á fáeinar setningar og án möguleika á því að fá að vita hvað lá þar að baki.

Sumar nefndanna reyndu hafna listafólki á uppbyggilegan hátt: “Mjög góð umsókn. Rædd sérstaklega á fundi úthlutunarnefndar. Um afar verðugt verkefni er að ræða og nefndin vonar að það hljóti framgang. Hefði fengið úthlutun ef meira hefði verið til ráðstöfunar. Umsókn hafnað.” Er það hlutverk ríkisstofnunar að senda frá sér umsögn sem felur í sér hrós en um leið skýlir sér bak við takmarkað fjármagn, til að réttlæta höfnun? Og hvað með von nefndarinnar um að verkefnið hljóti síðar framgang, er verið að lofa launum að ári?

Allt það listafólk sem ég hef verið í samskiptum við síðustu daga var á einu máli um að ef ekki sé hægt að rökstyðja synjanir ítarlegra en með nokkrum orðum, þá sé betra að fá staðlaðan synjunartexta eins og “stjórn listamannalaun þakkar þér fyrir umsóknina, ekki er hægt að bregðast við henni með úthlutun að þessu sinni. Við óskum þér alls hins besta í framtíðinni og vonum að þú sækir um á næsta ári, heldur en gildishlaðinn dóm um gæði umsóknar sem enginn rökstuðningur fylgir.

Þessi vinnubrögð hafa aukið á hugrenningar hjá listafólki um að úthlutunarnefndir séu að hafna einstaklingum t.d. vegna uppruna eða kynferðis. Þá ýtir ógagnsæið undir þá tilfinningu hjá sumu listafólki að frændhygli ráði oft för er kemur að úthlutunum listamannalauna.

Mögulegar úrbætur

Stjórn Listamannalauna sendi 5.desember frá sér yfirlýsingu þar sem listafólk var beðið afsökunar á særandi ummælum við synjun listamannalauna og mun ræða hvernig eigi að standa að umsögnum í framtíðinni. Réttmæt gagnrýni kemur fram og hún er strax tekin til skoðunar og brugðist við. Þetta er dæmi um vandaða stjórnsýslu.

Þá komum við að öðrum þætti sem var talsvert gagnrýndur við úthlutun listamannalauna fyrir árið 2025, skortur á fjármagni til útdeilingar. Þrátt fyrir að hinar skapandi greinar á Ísandi velti tugum milljarða, þá koma bara rúmlega 960 milljónir í launagreiðslur frá ríkinu. Þetta litla fé setur úthlutunarnefndir í vanda. Hverja á að styrkja og hverjum á að synja? Er hægt að synja virtu og verðlaunuðu listafólki með áratuga feril að baki? Hverjum á þá að synja?

Sjö prósent af úthlutunarfé nefndanna var eyrnamerkt nýliðum og því voru rúmlega þrjátíu nýliðar sem fengu úthlutun að þessu sinni. Var þá hægt að synja öllum öðrum sem sóttum um og voru á vissu aldursbili t.d. 20-35 ára um laun?

Þar sem ekki er hægt að synja margverðlaunuðu og virtu listafólki og ungu listafólki er ætluð sín prósent, er þá einhver hópur eða hópar sem frekar er synjað? Það er upplifun margra að svo sé. Ein leið til þess að eyða þessari upplifun listafólks, er að auka fé til ráðstöfunar fyrir nefndirnar og auka gagnsæi hvernig nefndirnar vinna. Væri ekki hægt að senda með synjun hversu mörg stig á matskvarðanum sem unnið er eftir, umsóknin fékk og láta fylgja með hversu mörg stig þurfti til að fá úthlutun?

Þá er spurning hvort að RANNÍS ætti að bjóða upp á námskeið á vorin í því að sækja um listamannalaun? Slíkt námskeið rímaði ágætlega við leiðbeiningaskyldu stjórnvalda og yrði til þess að enn þá auðveldara yrði fyrir matsnefndir að fara yfir þær umsóknir sem berast, þar sem listafólk sem setið hefði námskeiðin, væri að senda frá sér svipaðar umsóknir.

Næsta grein

Í næstu grein ætla ég að fjalla um upplifanir umsækjanda sem telja sig jaðar- eða grasrótarlistamenn og þeirra sem tilheyra jaðarsettum hópum, af synjunum úthlutunarnefnda. Ég hef fengið töluvert af póstum frá listafólki sem telur sig ekki sitja við sama borð og annað listafólk þegar kemur að úthlutun launa, vegna uppruna síns, kynhneigðar eða hvaða kyni það tilheyrir.

Ábendingar og vangaveltur um eðli listamannalauna má senda á thorhallur@rannsoknir-radgjof.net. Fullum trúnaði er heitið.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×