Lífið

Mynd­band: Sungu snjó­korn falla á ís­lensku tákn­máli

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Börnin voru glöð og feimin þegar þau sáu mynbandið í fyrsta skipti í gær.
Börnin voru glöð og feimin þegar þau sáu mynbandið í fyrsta skipti í gær.

Krakkarnir í Táknmálseyju í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra tóku sig til í vikunni og sungu eitt þekktasta jólalag Íslands, Snjókorn falla á íslensku táknmáli. Myndband af krökkunum hefur vakið mikla athygli en krakkarnir senda landsmönnum hlýjar jólakveðjur.

Eyrún Helga Aradóttir, sviðsstjóri táknmálssviðs Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, segir börnin hafi verið afar ánægð með útkomuna, en þau sáu myndbandið í fyrsta skipti í gær. Hún segir þau alls ekki hafa átt von á því að myndbandið myndi vekja svona mikla athygli.

Táknmálseyja er markvisst málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri. Verkefnið miðar að því að útbúa táknmálsumhverfi fyrir öll táknmálsbörn þar sem þau læra íslenskt táknmál í gegnum leik og starf.

„Þau eru vön því að koma fram en ekki endilega að syngja svona á okkar vegum. Við fengum þá hugmynd að fá þau til okkar einn auka dag á laugardegi og fórum yfir þýðingarnar á laginu í stúdíói. Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum þetta en klárlega eitthvað sem við munum gera aftur,“ segir Eyrún Helga og bætir við:  „Við vissum ekki að þetta færi svona á flug.“

Myndbandið er tekið upp og unnið á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Snjókorn falla með táknmálsbörnunum í Táknmálseyju

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.