Íslenski boltinn

Fyrsta skóflu­stunga tekin og KR spilar á gervigrasi

Sindri Sverrisson skrifar
KR-ingar hafa spilað sinn síðasta leik á grasi á Meistaravöllum, að minnsta kosti í bili.
KR-ingar hafa spilað sinn síðasta leik á grasi á Meistaravöllum, að minnsta kosti í bili. vísir/Anton

Í dag verður fyrsta skóflustunga tekin á Meistaravöllum, heimavelli KR-inga, þar sem leggja á gervigras í stað grasvallarins sem þetta stórveldi í íslenskum fótbolta hefur spilað heimaleiki sína á.

Um er að ræða fyrsta áfanga af nokkrum í endurbótum hjá KR-ingum sem næsta sumar geta spilað á glænýjum gervigrasvelli.

Líkt og á síðasta tímabili verða því aðeins þrjú lið næsta sumar í Bestu deild karla, sem spila heimaleiki sína á grasi. Það verða ÍA, FH og nýliðar ÍBV.

Víkingur, Breiðablik, Valur, Stjarnan, Fram, KA, Vestri og nú KR spila á gervigrasi, líkt og nýliðar Aftureldingar. Liðin sem féllu úr Bestu deildinni, HK og Fylkir, léku bæði heimaleiki sína á gervigrasi.

Kvennalið KR, sem vann sig upp úr 2. deild og spilar því í Lengjudeildinni á næstu leiktíð, mun að sjálfsögðu einnig spila heimaleiki sína á nýja gervigrasinu á Meistaravöllum.

KR-ingar áttu í talsverðum vandræðum vegna vallarmála á þessu ári og hóf liðið bæði og lauk tímabilinu á gervigrasvelli Þróttar í Laugardal.

Þá þurfti að loka æfingavelli félagsins í ágúst vegna slysahættu sem ónýtt gervigras olli. Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR, sagði þá við Vísi að kvartað hefði verið ítrekað undan vellinum vegna óvandaðra vinnubragða við lagningu gervigrassins.

Meistaraflokkur KR æfði því meðal annars á æfingasvæði á Starhaga, sem ella hefði ekki verið nýtt, og meiddust tveir leikmenn karlaliðsins þar á æfingu í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×