Handbolti

Fimmta tap Gróttu í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekkert gengur hjá Hannesi Grimm og félögum í Gróttu þessa dagana.
Ekkert gengur hjá Hannesi Grimm og félögum í Gróttu þessa dagana. vísir/anton

KA hafði sætaskipti við Gróttu eftir öruggan sigur, 29-23, í leik liðanna í Olís deild karla í kvöld. KA-menn eru í 8. sæti deildarinnar en Seltirningar í því níunda. Bæði lið eru með níu stig.

Þetta var fimmta tap Gróttu í röð en liðinu hefur heldur betur fatast flugið eftir góða byrjun á tímabilinu.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson fór mikinn í liði KA og skoraði tíu mörk. Einar Birgir Stefánsson skoraði fimm mörk og Dagur Árni Heimisson fjögur. Nicolai Kristensen varði vel annan leikinn í röð, alls tólf skot (35 prósent).

Gestirnir frá Seltjarnarnesi voru með frumkvæðið framan af leik en heimamenn breyttu stöðunni úr 7-9 í 12-10 og leiddu svo í hálfleik, 12-11.

KA tók svo stjórnina með góðri byrjun á seinni hálfleik. Þeir gulu og bláu breyttu stöðunni úr 15-14 í 19-15 og litu ekki um öxl eftir það. KA-menn unnu á endanum sex marka sigur, 29-23, og þeir hafa unnið tvo leiki í röð.

Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha og Jón Ómar Gíslason skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Gróttu sem var aðeins með 51 prósent skotnýtingu í leiknum og tapaði boltanum fimmtán sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×