Erlent

Haldlögðu metmagn af kókaíni í sam­eigin­legri að­gerð 62 ríkja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Fíkniefna-kafbátarnir“ eru þannig gerðir að á yfirborðinu sést aðeins toppurinn á þeim. Stærsta rýmið er neðansjávar.
„Fíkniefna-kafbátarnir“ eru þannig gerðir að á yfirborðinu sést aðeins toppurinn á þeim. Stærsta rýmið er neðansjávar.

Kólumbísk yfirvöld hafa í samstarfi við aðila í 62 ríkjum lagt hald á 225 tonn af kókaíni á aðeins sex vikum. Um er að ræða metmagn í einni aðgerð.

Aðgerðin var köllu Óríon og beindist gegn hálfgerðum kafbátum, fullum af eiturlyfjum. Alls var lagt hald á 1.400 tonn af fíkniefnum, þar af yfir þúsund tonn af marjúana.

Að sögn Manuel Rodríguez, sem fer fyrir fíkniefnasveit kólumbíska flotans, er um að ræða töluvert högg fyrir glæpagengi Suður-Ameríku sem sérhæfa sig í fíkniefnaframleiðslu en Sameinuðu þjóðarnar áætla að um 2.700 tonn af kókaíni séu framleidd í heiminum á ári hverju.

„Þetta mun koma í veg fyrir þúsundir dauðsfalla af völdum ofskömmtunar,“ segir Rodríguez en einnig sé um að ræða umtalsvert tekjutap fyrir glæpahópana, þar sem verðmæti kókaínsins sé metið á um 8,5 milljarða Bandaríkjadala.

Ríkin sem stóðu að aðgerðinni lögðu meðal annars til flugvélar, þyrlur og skip til að fylgjast með og stöðva „fíkniefna-kafbátana“ en deildu einnig upplýsingum á milli sín. Einn stærsti áfanginn var þegar sex bátar voru stöðvaðir hlaðnir kókaíni, sem leiddi til fundar nýrrar flutningsleiðar til Ástralíu.

Eftirspurn eftir kókaíni hefur vaxið mjög í Ástralíu og hátt verð er sögð hvatning fyrir eiturlyfjabaróna að leita nýrra leiða til að koma efnunum yfir hafið. Leiðin frá Kólumbíu til Ástralíu telur 4.000 mílur eða 6.437 kílómetra.

Kíló af kókaíni kostar 240 þúsund Bandaríkjadollara í Ástralíu, þrisvar til sex sinnum meira en í Bandaríkjunum.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×