Erlent

Lög­reglu­maður fundinn sekur um að bana 95 ára konu með rafbyssu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Clare Nowland var þekkt í heimabæ sínum og fór meðal annars í fallhlífarstökk þegar hún varð áttræð.
Clare Nowland var þekkt í heimabæ sínum og fór meðal annars í fallhlífarstökk þegar hún varð áttræð. AP/ABC

Kristian White, 34 ára lögreglumaður, hefur verið fundinn sekur um að hafa banað Clare Nowland, 95 ára, þegar hann skaut hana með rafbyssu. Nowland féll, fékk höfuðhögg og lést í kjölfarið.

Atvikið átti sér stað á hjúkrunarheimili í bænum Cooma í Ástralíu þann 17. maí 2023. Nowland, sem hafði ekki verið formlega greind með heilabilun en hafði sýnt einkenni um nokkurra mánaða skeið, hafði þá verið á rölti um heimilið vopnuð hnífum.

Nowland hafði meðal annars farið með hnífana inn á herbergi annars heimilismanns en sá sagðist ekki hafa upplifað að honum stæði hætt af henni. Enda var hún, eins og ákæruvaldið benti á, ekki aðeins 95 ára heldur 48 kíló og gekk með aðstoð göngugrindar.

Þegar lögregla kom á staðinn var Nowland ítrekað sagt að leggja hnífinn sem hún bar frá sér en varð ekki við því. Á myndskeiði sést hvernig hún nálgast lögregluþjónana og lyftir hnífnum en hafa ber í huga að það tók hana mínútu að komast einn metra.

White varaði Nowland við því að hann hefði miðað vopninu að henni en sagði svo „skítt með það“ og hleypti af, á meðan Nowland var enn í 1,5 til 2 metra fjarlægð.

Lögmenn White sögðu hann hafa verið að afstýra hættuástandi en ákæruvaldið var ósammála.

„Hvern gat hún skaðað á þessum tíma? Engan,“ sagði saksóknarinn Brett Hatfield. Aðeins þrjár mínútur hefðu liðið frá því að White gekk fram á Nowland og þar til hann hleypti af og hann sýnt pirring og óþolinmæði.

Tvo vitni, lögreglumaður og sjúkraflutningamaður, sögðust einnig hafa upplifað að Nowland ógnaði öryggi þeirra en féllust þó á að þau hefðu auðveldlega getað komið sér undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×