Bíó og sjónvarp

Frum­sýning á Vísi: Steindi og Saga rifja upp gamla takta í Draumahöllinni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það mun kenna ýmissa grasa í Draumahöllinni líkt og þessi mynd af setti ber með sér.
Það mun kenna ýmissa grasa í Draumahöllinni líkt og þessi mynd af setti ber með sér.

Grínistarnir Steindi jr og Saga Garðars munu rifja upp gamla takta í sketsaseríunni Draumahöllinni sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í desember og janúar. Steindi segist himinlifandi með að komast loksins aftur í að gera sketsaþætti eftir nokkurra ára hlé þó Draumahöllin verði enginn hefðbundinn sketsaþáttur.

„Það er svo langt síðan að við gerðum sketsaseríu þannig að við erum alveg fáránlega peppuð og tókum okkur líka fínan tíma í að skrifa þessa þætti,“ segir Steindi í samtali við Vísi. Saga Garðars segir að líklega sé ekki til fyndnari menn á Íslandi en þeir Steindi og Maggi. Stiklu úr þættinum má horfa á hér fyrir neðan en um er að ræða seríu þar sem margir óborganlegir karakterar koma við sögu, sumir oftar en einu sinni. Þættirnir eru skrifaðir af þeim Steinda og Sögu auk Magnúsar Leifssonar sem jafnframt leikstýrir þáttunum.

Mikil gervi og stórir karakterar

Steindi rifjar upp að þau Saga og Maggi hafi ætlað í tökur á þáttunum mun fyrr, þegar Saga hafi orðið ólétt. Þau hafi verið tvístígandi en ákveðið að bíða. Það hafi reynst gæfuríkt spor.

„Það var eftir á að hyggja frábært en þá fengum við annað tækifæri til að skoða það sem við höfðum skrifað, gátum fínpússað þetta og lagað helling. Þannig að við erum hæstánægð með handritið að þáttunum og getum eiginlega ekki annað en lofað alvöru stemningu,“ segir Steindi eldhress eins og venjulega.

Hann segir alls ekki um hefðbundna sketsaseríu að ræða. Þau hafi lagt mikið upp úr gervum og fengið marga af þekktustu leikurum landsins til liðs við sig í ýmsum aukahlutverkum. „Við Saga leikum alltaf aðalhlutverkin í öllum sketsunum og eru þetta oft karakterar sem verða heimsóttir aftur og aftur.“

Steindi segir samstarfið við þau Sögu og Magga hafa gengið vonum framar, enda hafi þau unnið mikið saman áður. „Við Saga höfum unnið saman í allskonar verkefnum og svo hef ég þekkt Magga í mörg ár, hann kom inn í Steindann okkar á sínum tíma enda alltaf að fá skemmtilegar hugmyndir. Það er svo gaman að vera mættur aftur með sketsaþætti, ég get ekki beðið eftir því að sýna fólki þetta og get ekki annað en lofað góðri stemningu,“ segir Steindi.

Þríeykið skemmti sér konunglega við gerð þáttanna.

Ekki til sú hárkolla sem ekki var mátuð

„Ég vil meina að Steindi sé besti leikari á Íslandi,“ segir Saga Garðars og eys lofi jafnframt yfir leikstjórann Magnús. „Fyrir utan hvað hann er fyndinn, þá hugsar hann líka svo sjónrænt fyndið, það eru rammarnir sem eru ógeðslega fallegir og fyndnir sem bætir svo miklu við.“

Saga segist í gríni fá að leika svo mikið af bældum og óheillandi konum að hún þakki guði fyrir að hún sé gift. „Því það myndi enginn vilja giftast mér eftir að þessi sería kemur út, allavega ekki hégómafullir menn. Þeir myndu hafna mér,“ segir hún hlæjandi.

Hún segir ekki til þá hárkollu sem Ragnar Fossberg eigi sem ekki hafi verið notuð í þáttunum. Serían sé gríðarlega fjölbreytt en í lok hvers þáttar er einn stærri vandaðri skets, í anda tónlistarmyndbandanna sem alltaf voru í lok sketsaþátta Steinda. 

„En í stað þess að enda á lagi þá endum við á svona aðeins meira cinematic skets með mun meiri vigt en hinir sketsarnir. Þetta verður algjör veisla fyrir augun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.