Skoðun

Kennara­verk­fall – sparka í dekkin eða setja meira bensín á bílinn?

Melkorka Mjöll Kristinsdóttir skrifar

Alls konar stéttir fara í verkfall með aðferðum sem eiga að vera óþægilegar, t.d. lítill hluti hótelstarfsfólks, sem gerir það að verkum að hótelið lamast.

Þetta er alltaf strategía því verkföll eru eins konar stríðsástand.

Nú eru kennarar búnir að fá nóg af vanvirðingu og því að laun þeirra hafi ekki verið leiðrétt í samræmi við 8 ára samkomulag.

Þeir ákveða að beita verkfallsvopninu þannig að þeir geti haldið lengi út, vegna þess að þeir vita, að fenginni áratuga reynslu, að það er við ísjaka að etja; djúpstætt virðingarleysi og óorðaðar hugmyndir um að þeir sem sinni börnum (sögulega séð, mamman, amman, kennarar = konur) eigi að gera það vegna þess að það sé skylda þeirra og vegna þess að þær bera einfaldlega þessa ábyrgð.

Hvernig dirfast kennarar... og nú heitir það: ,,Hvernig dirfast þeir að mismuna börnum.''

Foreldrar þeirra barna sem geta ekki farið í skóla eða leikskóla biðja um andmælarétt; senda bréf og krefjast þess að fá fund með kennurum, á þeirri forsendu að verið sé að mismuna börnum.

Þessar mótbárur hljóma mjög lærðar og gáfulegar á yfirborðinu, en eru í raun byggðar á þessum sama djúpstæða misskilningi og fordómum í garð kvenna sem sinna börnum; þær séu að gera skyldu sína.

Misskilningurinn felst einnig í því að rugla saman kennurum og stjórnsýslustofnunum;

Stjórnsýslustofnanir þurfa lögum samkvæmt að gæta jafnræðis og andmælaréttar, ekki fólk í verkfalli.

Þetta er ógeðslega erfitt ástand fyrir þær fjölskyldur sem fyrir því verða, en bíllinn kemst einfaldlega ekki lengra.

Á þá að sparka í dekkin eða setja meira bensín á bílinn?

Höfundur er kennaramenntaður og í ML-námi í lögfræði.




Skoðun

Sjá meira


×