Handbolti

Ágúst tekur við af Óskari hjá Val

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Jóhannsson hefur stýrt kvennaliði Vals með frábærum árangri síðustu ár.
Ágúst Jóhannsson hefur stýrt kvennaliði Vals með frábærum árangri síðustu ár. Vísir/Pawel

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals í handbolta kvenna, verður þjálfari karlaliðs Vals frá og með næstu leiktíð.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Val í dag, í aðdraganda stórleiksins við Vardar á Hlíðarenda á morgun, í Evrópudeild karla.

Ágúst, sem einnig er aðstoðarlandsliðsþjálfari kvenna og því á leið til Austurríkis á EM, mun taka við af Valsmanninum mikla Óskari Bjarna Óskarssyni sem stýrt hefur Val síðustu misseri.

Óskar Bjarni stígur því til hliðar eftir að hafa tekið við Val í þriðja sinn á ferlinum sumarið 2023, þegar Snorri Steinn Guðjónsson hætti til að taka við karlalandsliðinu. Þar hefur Óskar einmitt verið aðstoðarþjálfari.

Óskar Bjarni Óskarsson hefur reynst Val dýrmætur um langt árabil.vísir/Anton

Óskar var áður aðalþjálfari karlaliðs Vals á árunum 2003-10 og 2014-17. Hann stýrði Val með Jóni Kristjánssyni tímabilið 2014-15 og Guðlaugi Arnarssyni 2016-17. Þar fyrir utan hefur hann svo oft verið aðstoðarþjálfari liðsins.

Ágúst hefur stýrt kvennaliði Vals frá árinu 2017, og stýrði því einnig upp úr aldamótum. Hann hefur einnig til að mynda stýrt íslenska kvennalandsliðinu og karlaliði KR ásamt því að þjálfa í Danmörku og Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×