Handbolti

Pick Szeged hafði betur í toppslag Ís­lendingaliðanna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Janus Daði fagnaði sigri í Íslendingaslag í dag.
Janus Daði fagnaði sigri í Íslendingaslag í dag. Vísir/Getty

Íslendingaliðin Pick Szeged og Veszprem mættust í sannkölluðum toppslag í ungversku deildinni í handknattleik í dag. Janus Daði Smárason hafði þar betur gegn tveimur félögum sínum úr landsliðinu. 

Fyrir leikinn í dag voru bæði Pick Szeged og Veszprem með 16 stig í tveimur efstu sætum ungversku deildarinnar en lið Pick Szeged hafði leikið einum leik meira en Veszprem sem hafði unnið alla sína átta leiki.

Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson voru í leikmannahópi Veszprem en Aron gekk til liðs við félagið á dögunum í annað sinn á ferlinum. Þá var Janus Daði Smárason á sínum stað í liði heimamanna í Pick Szeged.

Leikur þessara erkifjenda var jafn og spennandi eins og við var að búast. Heimamenn komust í 8-5 eftir tuttugu mínútna leik en Veszprem skoraði þá fjögur mörk í röð og náði forystunni. Staðan í hálfleik var 12-12 og leikurinn í járnum.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt. Pick Szeged var skrefinu á undan og náði þriggja marka forskoti í stöðunni 23-20 þegar tíu mínútur voru eftir. Gestirnir náðu að minnka muninn og þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir gat Aron Pálmarsson jafnað metin í 25-25 en skot hans fór forgörðum.

Pick Szeged skoraði í staðinn síðustu þrjú mörk leiksins og tryggði sér 28-24 sigur. Heimamenn fara því á topp deildarinnar með 18 stig en Veszprem er tveimur stigum á eftir og á leik til góða.

Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk úr þremur skotum fyrir Pick Szeged í dag og Aron Pálmarsson skoraði sömuleiðis tvö mörk fyrir lið Veszprem. Bjarki Már Elísson kom ekki við sögu hjá gestunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×