Handbolti

Frækinn sigur Vals í Kristianstad

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur vann einvígið gegn Kristianstad með samtals átta mörkum, 56-48.
Valur vann einvígið gegn Kristianstad með samtals átta mörkum, 56-48. vísir/anton

Íslands- og bikarmeistarar Vals eru komnir í sextán liða úrslit EHF-bikars kvenna í handbolta eftir sigur á Íslendingaliði Kristianstad, 24-29, í Svíþjóð í dag. Valskonur unnu einvígið, 56-48 samanlagt.

Valur vann fyrri leikinn gegn Kristianstad á Hlíðarenda um síðustu helgi, 27-24, og stóð því vel að vígi fyrir leikinn í dag.

Valskonur gáfu engin færi á sér í dag og sænska liðið var aldrei líklegt til að snúa dæminu sér í vil.

Valur var einu marki yfir í hálfleik, 14-15, og snemma í seinni hálfleik skildu svo leiðir. Valskonur skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum seinni hálfleiks og náðu fjögurra marka forskoti, 15-19. Eftir það var róður Kristianstad afar þungur.

Mestur varð munurinn átta mörk, 19-27, en Valur vann á endanum fimm marka sigur, 24-29.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Lovísa Thompson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Val og Elín Rósa Magnúsdóttir fimm. Hafdís Renötudóttir varði fimmtán skot í marki Valskvenna, eða 39,5 prósent þeirra skota sem hún fékk á sig.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad og Berta Rut Harðardóttir eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×