Lífið

Þrjár mennta­stofnanir og þrír kennarar hand­hafar Ís­lensku mennta­verð­launanna

Lovísa Arnardóttir skrifar
Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum.
Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum. Mynd/Mummi Lú

Þrjár menntastofnanir og þrír grunnskólakennarar eru handhafar Íslensku menntaverðlaunanna 2024 en tilkynnt var um úrslit þeirra í dag, miðvikudaginn 6. nóvember, með hátíðlegri athöfn á Bessastöðum.

Verðlaunahafarnir eru Fellaskóli, fyrir fjölmenningarlega og skapandi kennsluhætti, Hrafnhildur Sigurðardóttir kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ fyrir hugmyndaríka útikennslu og Helgafellsskóli fyrir verkefnið Snjallræði. Þá hlýtur einnig verðlaunin Verkmenntaskóli Austurlands fyrir að efna til samstarfs við grunnskólann í Fjarðabyggð um framboð á valgreinum og Bergmann Guðmundsson verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri og Hans Rúnar Snorrason kennari við Hrafnagilsskóla fyrir að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.

Markmið verðlaunanna er sem fyrr að vekja athygli á og hefja til vegs í samfélaginu það metnaðarfulla og vandaða starf sem unnið er með börnum og ungmennum á öllum skólastigum.

Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og bárust fjölmargar tilnefningar um verðuga verðlaunahafa um allt land. Viðurkenningaráð valdi úr þeim og kynnti tilnefningarnar á alþjóðadegi kennara þann 5. október. Úrslitin voru síðan gerð opinber í kvöld í sjónvarpsþætti RÚV.

Ólafur Ragnar Grímsson stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna og veitti þau á árunum 2005–2011, þegar þau lögðust af í kjölfar efnahagshrunsins. Verðlaunin voru tekin upp að nýju árið 2020 og eru nú veitt árlega á Bessastöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.