Skoðun

Búum til „vanda­mál“ – leysum það með sam­ræmdum prófum

Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar

Umræða um skólastarf hefur verið hávær frá því í vor. Viðskiptaráð var leiðandi í þeirri umræðu en framkvæmdarstjóri þess talaði um „neyðarástand“ í grunnskólum landsins. Nú sjáum við að tilgangurinn helgar meðalið. Sjálfstæðisflokkurinn boðar „umbreytingu á menntakerfinu.“ Þetta á að gera m.a. með að taka aftur upp samræmd próf. Leysum vanda framtíðar með því að beita aðferðum fortíðar. Menntamálaráðherrar Framsóknar, Lilja D. Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, eiga það sameiginlegt að þykja vænt um íslenska menntakerfið. Í skrifum sjálfstæðismanna birtist ekki væntumþykja heldur vilji til að tala niður skólakerfi með undirliggjandi tón um að einkavæða það.

Niðurstöður úr Pisa gefa vissulega tilefni til að endurskoða og setja í forgang viðbrögð til að auka árangur menntakerfis okkar. Yfirvöld hafa sett af stað faglega vinnu, bæði til greiningar og til að bregðast við. Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur unnið að því hörðum höndum að endurskoða menntakerfið heildstætt. Úr þeirri vinnu, sem hófst árið 2020, kom m.a. nýtt matsferli sem leysir gömlu samræmdu prófin af hólmi.

Hlutverk matferilsins er tvíþætt:

  • Tryggja heildstæða og skýra mynd af stöðu hvers barns í námi og framförum þess jafnt og þétt yfir skólagönguna, m.a. með að markmiði að það fái viðeigandi kennslu og stuðning þegar þörf er á. Til þess fá skólar aðgang að fjölbreyttum matstækjum og verkfærum. Upplýsingarnar sem við það skapast eiga jafnframt að nýtast nemendum og forráðamönnum þeirra og stuðla að trausti í samstarfi heimila og skóla um nám við hæfi hvers og eins barns.
  • Afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild, með skyldubundnu samræmdu námsmati, þannig að stefnumótandi aðilar, sem og aðrir, geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir, bæði í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu.

Matsferilinn hefur í för með sér bætt aðgengi foreldra, barna, skóla og menntayfirvalda að upplýsingum um stöðu og framvindu barnsins í gegnum skólakerfið sem og stöðu menntakerfisins í heild sinni. Allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Þannig er betur hægt að stuðla að árangursríkum snemmtækum stuðningi og tryggja að börn fái aðstoð um leið og þörf vaknar, sem er lykilþáttur í því að draga úr eða koma í veg fyrir frekari námsvanda á síðari stigum. Þetta er algjörlega ný og heildstæð nálgun.

Innleiðing matsferilsins hefur þegar farið af stað. Matsferillinn mun nýtast kennurum mun betur í starfi. Verið er að færa skólasamfélagið fram um marga áratugi. Þetta er unnið í samráði við kennara sjálfa.

Sjálfstæðisflokkurinn vill takast á við nútímann með því að horfa í baksýnispegilinn. Nota gamlar aðferðir til að mæla getu nemanda. Pólitískar herferðir sem beinst hafa gegn skólakerfinu gleyma að benda á nokkrar staðreyndir. Íslenskt samfélag hefur gerbreyst hratt undanfarin ár. Við höfum þurft að aðlagast um leið og við tökumst á við breytt samfélag. Heimsfaraldurinn umturnaði kennslu þar sem íslenskt skólasamfélag opnaði faðminn fyrir nemendum. Þetta gerðu þeir með því að hólfa niður og skipuleggja skólastarfsemi á einni helgi. Í samræmi við þessa þrautseigju sýna rannsóknir að íslenskum nemendum líður almennt vel í skólanum. Nemendum finnst þau almennt tilheyra í skólanum og sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, ásamt því að treysta kennurum sínum.

Hagsæld okkar til framtíðar grundvallast á gæðum menntunar. Við þurfum vissulega að horfast í augu við vandamálin en framtíðin krefst þess að við horfum fram á veginn – en ekki í baksýnisspegilinn.

Höfundur er formaður Skóla – og frístundarsviðs Reykjavíkurborgar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×