Skoðun

Höldum á­fram að nýta tæki­færin, virkjum til fram­tíðar og tryggjum orkuöryggi

Viktor Klimaszewski skrifar

Síðustu 10 ár eða allt frá 18 ára aldri hef ég margoft verið spurður afhverju ég kýs Sjálfstæðisflokkinn? Þeir vinna jú bara fyrir ríka fólkið. Vissulega er ég ekki ríkur í aurum talið, en ég er svo sannarlega ríkur af mörgu öðru. Hér á ég góða vinnu, heimili - fjölskyldu. Stutta og einfalda svarið er að ég kýs einstaklingsfrelsi. Hér á Íslandi, sem auðvelt er að kalla land tækifæranna, er einstaklingsfrelsið mikið. Hér er nákvæmlega ekkert sem kemur í veg fyrir að ég verði það sem ég kýs að vera, nema auðvitað ég sjálfur.

En það er í mörgu sem hægt er að gera betur. Þar má helst nefna orkumálin. Hér höfum við stór fyrirtæki sem standa á sterkum grunni og reiða sig alfarið á orku - græna orku sem landið okkar hefur upp á að bjóða, öllum til hagsbóta.

Núna uppá síðkastið höfum við þurft að þola miklar orkuskerðingar sökum skorts á orku og það er aðeins ein ástæða þess. Við erum ekki að nýta tækifærin sem landið færir okkur. Hvernig ætlum við að tala um framtíðina og klára orkuskiptin þegar við erum hálfpartinn komin aftur á steinöld miðað við þau lönd sem við gjarnast berum okkur saman við? Vissulega eru ekki allir sammála, en það er fegurðin við einstaklingsfrelsið. Um eitt geta þó allir verið sammála, og það er að engum sé til hagsbóta að brenna olíu til þess eitt að framleiða rafmagn, hvorki fyrirtækjum né umhverfinu.

Við íbúar Fjarðabyggðar stólum einna mest á orku, enda engin hitaveita til staðar á svæðinu nema á Eskifirði. Rafmagn er okkur mikið öryggismál enda stór hluti fólks með atvinnu í álverinu á Reyðarfirði sem og stórútgerðunum á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Norðfirði. Höldum áfram að nýta tækifærin, virkjum til framtíðar og tryggjum orkuöryggi og trygga afkomu fyrir land og þjóð.

Höfundur er álversstarfsmaður og stjórnarmaður Hávarr, félags ungra sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×