Skoðun

Kveðja, ný­út­skrifaði kennarinn

Hugrún Stefánsdóttir skrifar

Sem nýútskrifaður kennari, umsjónarkennari og fagkennari í erlendum málum hef ég nú þá vitneskju og sýn að skólastarf snýst ekki bara um að miðla námsefni heldur snýst það að miklu leyti um heildstæða umsjón og umhyggju fyrir nemendum.

Dagleg verkefni mín ná langt út fyrir kennslustundirnar sem ég kenni og langt út fyrir venjulegan 8-16 vinnutíma. Mín helstu verkefni er að fara yfir verkefni nemenda og veita þeim gagnlega endurgjöf sem þau geta byggt á. Ég bý til nýtt námsefni og tek tillit til sérþarfa nemenda minna með ýmsum aðlögunum. Ég tek tillit til og sinni líðan þeirra og ræði við foreldra og samstarfsfólk til að tryggja stuðning fyrir hvern nemanda og að öllum líði sem best í skólanum. Öll mín vinna byggir á skipulagi, því enn sem komið er vantar mig reynslu í bakpokann sem ég er að safna í.

Í nýliðnu vetrarfríi vann ég stanslaust til að halda utan um allt það sem safnast hefur upp. Þetta er vinna sem tilheyrir því að vera faglegur og samviskusamur kennari. Ég spyr mig hvort ég geti starfað við þetta í mörg ár í viðbót ef starfið tekur stóran part af mínum frítíma en launin eru ekki í takt við það. Við sem stöndum framarlega í að byggja framtíð barnanna eigum það skilið að vera metin að verðleikum.

Verkfall hefur nú skollið á og heldur líklega áfram ef ekki næst að semja um kjarabætur. Heyrst hefur að kröfurnar séu ekki skýrar en ég sem er ný í þessu starfi sé ekki betur en að þær séu mjög skýrar: kennarar eru að fara fram á sambærileg laun á við aðrar fagstéttir og um leið að fá viðurkenningu á því hlutverki sem þeir gegna í samfélaginu.

Það þarf að fjárfesta í framtíð barnanna og sú fjárfesting hefst á því að virða og styðja kennara í störfum sínum.

Höfundur er kennari




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×