Fótbolti

Fresta leikjum vegna ham­faraflóða á Spáni

Sindri Sverrisson skrifar
Flóðin á Spáni hafa valdið dauða að minnsta kosti 51 manns og valdið margs konar öðru tjóni.
Flóðin á Spáni hafa valdið dauða að minnsta kosti 51 manns og valdið margs konar öðru tjóni. Getty/Alex Juarez

Þremur leikjum hefur verið frestað í spænsku bikarkeppninni í fótbolta vegna óveðurs og hamfaraflóða sem gengið hafa yfir austurhluta Spánar.

Flóðin hafa kostað yfir fimmtíu manns lífið í Valensía-héraði og algjört neyðarástand hefur ríkt á svæðinu.

Í kvöld og á morgun átti að spila í 1. umferð spænska bikarsins en þegar þetta er skrifað hefur þremur leikjanna verið frestað, og Marca segir stjórnendur spænska knattspyrnusambandsins nú vega og meta hvort fresta eigi fleiri eða öllum leikjum. Getafe hefur til að mynda sóst eftir því að leik liðsins við Manises, sem fara átti fram á morgun, verði frestað.

Það er þó þegar orðið ljóst að þremur leikjum liða frá hamfarasvæðinu hefur verið frestað. Valencia átti að mæta Parla Escuela á útivelli, í nágrenni Madrid, en þeim leik var frestað fram á næsta miðvikudag.

Leikur Pontevedra og Levante fer fram á fimmtudaginn eftir viku og nú er einnig búið að fresta leik Ejea og Hércules, sem staðsett er í Alicante, þar sem Hércules-liðið gat ekki ferðast norður. Sá leikur fer fram næsta miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×