Skoðun

Kennarar eru alltaf í fríi

Stein Olav Romslo skrifar

„Þið eigið svo marga orlofsdaga“ fæ ég oft að heyra – sérstaklega þegar kjarabarátta kennara er í umræðunni.

Já, 30 dagar eru aðeins meira en hjá mörgum og lögbundna lágmarkið en ég þekki fullt af fólki á almennum markaði sem hefur samið um jafn marga daga. Og það eru ekki einungis kennarar sem hafa 30 orlofsdaga í kjarasamningi, það er algengt á opinberum markaði.

„En á sumrin?“

Já, ég á 30 orlofsdaga. Allt árið, líka á sumrin. En ég fæ ekki að ráða hvenær ég tek þá. Ég verð að taka þá alla á sumrin.

„En hvað með vetrarfrí og jólafrí og páskafrí?“

Já, þá erum við yfirleitt í fríi frá kennslu enda held ég að fáir myndu vilja að við kenndum á Þorláksmessu, á aðfangadag (fyrir kl. 13) eða á milli jóla og nýárs. Og vetrarfríin sem tíðkast var bætt við skóladagatalið því svo margir foreldrar tóku börnin sín úr skóla á skólatíma fyrir utanlandsferðir og slíkt en reynt var að koma í veg fyrir röskun á námi og skólastarfi eins og unnt er með þessu móti.

Þessi „frí“ eru auk þess ekki orlofsdagar heldur koma til af uppsöfnuðu vinnuframlagi umfram venjulega vinnuviku á skólaárinu. Venjuleg vinnuvika nemur 40 klukkustundum en kennarar vinna tæplega 43 klukkustundir á viku. Þessir aukatímar leysa ekki út yfirvinnugreiðslur heldur verðum við á móti að taka þessi frí á fyrirfram ákveðnum tíma.

Almennt þegar starfsmaður veikist í orlofi á hann rétt á að taka út orlofið seinna, í samráði við vinnuveitanda. Fyrir kennara er þetta tvenns konar. Annars vegar eru „fríin“ á skólaárinu ekki orlof þannig að kennarinn nýtur þá ekki neinna slíkra réttinda, það væri bara synd að verða veikur. Hins vegar eru það orlofsdagar á sumrin. Kennari sem veikist þá þarf að taka út uppsöfnuðu orlofsdagana á endurmenntunartímabilinu sem fer fram í byrjun ágúst. Það er síðan ekki fyrr en allir endurmenntunartímar klárast sem hann á rétt til að taka út orlofið á öðrum tíma í samráði við vinnuveitanda.

Og hér er ekki farið út í það hvernig kennarar raunverulega nýta „fríin“ sem er yfirleitt í undirbúning kennslu, yfirferð verkefna og námsmat, eða jafnvel í endurmenntun!

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×