Skoðun

Sjálfbærni er þjóðaröryggismál

Fida Abu Libdeh skrifar

Við hjá Framsókn stöndum fyrir því að nýta okkar náttúruauðlindir á ábyrgan hátt og byggja undir sjálfbæra framtíð fyrir land og þjóð. Sjálfbærni snýst um að vera sjálfum okkur nóg, hvort sem það er í matvælaframleiðslu, orkumálum eða annarri verðmætasköpun. Með sjálfbærnistefnu fylgir mikil ábyrgð, sérstaklega þegar kemur að því að fullnýta þá orku sem við eigum þegar til – til að tryggja þjóðaröryggi okkar.

Það er mikilvægt að við nýtum alla orkuna sem er tiltæk. Ef við sjáum gufustróka rísa frá virkjunum eða jarðhitavökva dælt niður við 120°C, vitum við að við erum ekki að fullnýta orkuna. Við viljum sjá nýtingu og nýsköpun handan hefðbundinnar orkunýtingar og horfa til orkugjafa eins og sólar- og vindorku til viðbótar við jarðhita og vatnsafl. Það er lykilatriði fyrir þjóðaröryggi.

Landbúnaður er okkur mikilvæg atvinnugrein og sjálfbærni í landbúnaði skiptir sköpum til framtíðar og styrkir stoðir öflugrar matvælaframleiðslu hér á landi í síbreytilegum heimi. Með því að stuðla að enn frekari sjálfbærni í landbúnaði getum við byggt traustari grunn að sjálfstæði þjóðarinnar. Ætlum í því samhengi að taka sjávarútveginn til fyrirmyndar, sem nær að nýta allt að 90% af hráefnum sínum. Með stuðningi við nýsköpun og hringrásarhagkerfi í landbúnaði getum við stuðlað að atvinnuþróun í öllum landshlutum og aukið verðmætasköpun í heimabyggð.

Það er löngu kominn tími til að efla stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Á Suðurnesjum er til dæmis ekki til staðar neitt frumkvöðlasetur eða stuðningsaðstaða fyrir nýsköpun. Við hjá Framsókn teljum að þetta þurfi að breytast. Við eigum að setja spurningamerki við sjálfbærni þess að auðlindir séu fluttar úr landi. Við verðum að styðja með öflugum hætti við verðmætasköpun hér á landi og nýta þær auðlindir sem við eigum yfir að ráða með sjálfbærum hætti.

Við erum í dauðafæri og höfum allar forsendur til að skapa sjálfbært Ísland. Við í Framsókn ætlum að vera leiðandi í þeirri vegferð með öflugu stuðningsnet fyrir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu víðsvegar um landið. Sjálfbærni er þjóðaröryggismál, og nú er kominn tími til að setja landsbyggðina í forgang, byggja undir verðmætasköpun og öryggi allra landsmanna.

Höfundur er frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi og skipar fjórða sæti.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×