Umræðan

Loksins al­vöru skaða­bætur?

Erla S. Árnadóttir skrifar

Lög um hugverkaréttindi hafa um áratugaskeið haft að geyma heimildir til að greiddar séu skaðabætur vegna brota á þessum réttindum, hvort sem um ræðir vörumerki, einkaleyfi, höfundaréttindi eða hönnun. Slíkum skaðabótum er ætlað að bæta höfundum og öðrum rétthöfum það tjón er þeir hafa orðið fyrir auk þess sem skaðabótum er ætlað að hafa varnaðaráhrif, þ.e. að stuðla að því að hugverkaréttindi séu virt. Það hefur hins vegar lengi verið svo að þær bætur sem dómstólar hafa dæmt í málum sem höfðuð hafa verið vegna brota á þessum réttindum hafa verið lágar, oft og tíðum það lágar að setja hefur mátt spurningamerki við það hvort þau varnaðaráhrif sem þessu réttarúrræði er ætlað að ná hafi í raun verið virk.

Á árinu 2010 var viðurlagakafla höfundalaga nr. 73/1972 breytt með það að markmiði að bæta stöðu höfunda og annarra sem verða fyrir broti á réttindum sínum. Var þar áréttað að við ákvörðun bóta skyldi ekki eingöngu miða við það beina fjárhagslega tjón sem rétthafar hefðu orðið fyrir heldur bæri auk þess að líta til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefði haft af brotinu. Í greinargerð með breytingalögunum kemur fram að ef ekki yrðu færðar sönnur á tjónið eða hagnaðinn sé gert ráð fyrir að bætur skuli dæmdar að álitum. Eðlilegt sé að í framkvæmd yrði þá miðað við hæfilegt endurgjald eins og samið hefði verið fyrirfram um not, að viðbættu álagi vegna frekara tjóns eða hagnaðar hins brotlega og að „… gæti þrautalendingin orðið sú að bæta við endurgjaldið jafnháu álagi þannig að bæturnar næmu alls tvöföldu endurgjaldi fyrir lögmæt not. Hér að baki býr sú hugsun að þeim sem hyggur á hagnýtingu verndaðra höfundarverka … er að fyrra bragði skylt að afla leyfis til þess frá rétthöfum.“

Aðeins hafa verið kveðnir upp á áfrýjunarstigi tveir dómar þar sem bætur eru ákvarðaðar vegna brota á höfundarétti sem áttu sér stað eftir gildistöku breytingalaganna sem eru nr. 93/2010. Ástæða er til að vekja athygli á dómi Landsréttar í máli nr. 266/2023 frá 10. október síðastliðinn.

Það hefur hins vegar lengi verið svo að þær bætur sem dómstólar hafa dæmt í málum sem höfðuð hafa verið vegna brota á þessum réttindum hafa verið lágar, oft og tíðum það lágar að setja hefur mátt spurningamerki við það hvort þau varnaðaráhrif sem þessu réttarúrræði er ætlað að ná hafi í raun verið virk.

Málið var höfðað af arkitektastofu A og eiganda hennar gegn arkitektastofu B sem hafði birt á heimasíðu sinni og Facebook síðu ljósmyndir af hlutum byggingarverka sem tveir fyrrverandi starfsmenn A (tveir af þremur stofnendum B) höfðu haft aðkomu að meðan þeir störfuðu þar. Stefnendur kröfðust þess að B fjarlægði ljósmyndirnar af vefsíðunum og að B greiddi þeim, hvorum um sig, skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að álitum að fjárhæð kr. 1.740.000 auk þess sem eigandi A krafði B um miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000. Var byggt á því af hálfu A að hann hefði sem vinnuveitandi arkitektanna tveggja fengið framseldan höfundarétt sem stofnast hefði til handa þeim við vinnu í þágu A, í tilviki annars þeirra á grundvelli skriflegs ráðningarsamnings og í hinu tilvikinu á grundvelli ólögfestra reglna höfundaréttar. B bar fyrir sig að arkitektarnir hefðu ekki gert annað en að kynna sig og reynslu sína innan þeirra marka sem sæmdarréttur þeirra heimili og þeir hefðu ekki framselt þau réttindi til A. Þá byggði B á því að hann hefði haft heimild samkvæmt 16. gr. höfundalaga til að birta verkin en það ákvæði hefur að geyma undanþágu frá rétti höfundar til að birta myndir af byggingum sem staðsettar hafa verið varanlega utanhúss á almannafæri.

Landsréttur, sem staðfesti í aðalatriðum niðurstöðu héraðsdóms, en með ítarlegri rökstuðningi, taldi að höfundaréttur að byggingarverkunum hefði fallið í hlut A að því marki sem félaginu væri nauðsynleg notkun hans í hefðbundinni starfsemi og það teldist sanngjarnt og eðlilegt að virtu því ráðningarsamandi er var við lýði. Jafnframt taldi rétturinn að sæmdarréttur eigenda B hefði ekki þýðingu enda sneri sakarefnið ekki að nafngreiningu höfunda eða rétti þeirra til að gera grein fyrir aðkomu sinni að hönnun verkanna. Þá var ekki talið að B hefði getað byggt birtinguna á 16. gr. laganna.

Um ákvörðun skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón taldi rétturinn að líta skyldi til liða í gjaldskrá Myndstefs auk þess sem bæta bæri við álagi. Litið var til þess að með brotum B hefði verið gefið til kynna að byggingarverkin væru höfundarverk þess félags fremur en A og sagt að brotin hefðu verið til þess fallin að styrkja stöðu B á kostnað A. Niðurstaða héraðsdóms um greiðslu skaðabóta til handa A að fjárhæð kr. 1.000.000 fyrir fjárhagslegt tjón var staðfest. Samkvæmt þeim upplýsingum er koma fram í héraðsdómnum lætur nærri að sú fjárhæð sé tvöföld sú fjárhæð sem A setti fram sem áætlað hæfilegt endurgjald fyrir lögmæta notkun. Hin áætlaða fjárhæð sýnist svo vera um tvöföld sú fjárhæð sem gjaldskrá Myndstefs kvað á um.

Ólík niðurstaða í þessum tveimur málum kann að skýrast af því að í eldra málinu voru rétthafar einstaklingar sem ekki stunduðu atvinnustarfsemi og hinir brotlegu voru einnig einstaklingar sem höfðu stofnað lítið félag utan um hina brotlegu starfsemi án þess að beinn fjárhagslegur hagnaður hefði virst vera af starfsemi félagsins.

Fyrir þremur árum, þann 12. nóvember 2021, kvað Landsréttur kvað upp dóm í öðru máli, þar sem um var að ræða fjölmargar teikningar sem höfðu verið nýttar með margvíslegum hætti án heimildar en rétthafar höfundaréttar að teikningunum voru erfingjar teiknarans. Í því máli fólu dómkröfur í nokkrum af fjölmörgum kröfuliðum í sér tvöföldun miðað við gjaldskrá Myndstefs. Með dómi Landsréttar voru í því tilviki eingöngu dæmdar bætur í samræmi við gjaldskrána og það rökstutt með þeim ummælum að hæfilegt endurgjald svari til þeirrar fjárhæðar sem innt yrði af hendi fyrir hagnýtingu höfundaréttinda við aðstæður sem telja verði sambærilegar þeim sem voru þegar höfundarréttarbrotið átti sér stað. Því var hafnað að endurgjald samkvæmt gjaldskrá yrði tvöfaldað og það rökstutt með því að í lögskýringargögnum sé gert ráð fyrir því að álagi á skaðabætur verði beitt vegna frekara tjóns brotaþola eða hagnaðar brotaþola og að í málinu hefðu stefnendur ekki sýnt fram á það með hvaða hætti þeir hefðu beðið frekara tjón en sem nam þeim fjárhæðum sem gjaldskráin kvað á um eða að stefndu hafi haft „frekari hagnað“.

Ljóst er að þær skaðabætur sem dæmdar voru af Landsrétti í málinu þann 10. október sl. voru háar miðað við þann taxta sem helst er unnt að benda á að gildi um afnot af ljósmyndum. Virðist svo sem Landsréttur hafi haft í huga að í málinu hafi verið fyrir hendi fjárhagslegir hagsmunir arkitektastofunnar A af því að samkeppnisaðili myndi ekki nýta sér réttindi A með ólögmætum hætti og að sama skapi að samkeppnisaðilinn, arkitektastofa B, myndi ekki hagnast á því að nýta sér slík réttindi án heimildar. Jafnframt, að slíkir hagsmunir væru þá til viðbótar þeim hagsmunum að fá greitt hæfilegt endurgjald. Þessi rökstuðningur samræmist því sem kemur fram í lögskýringargögnum með fyrrgreindum breytingum á viðurlagakafla höfundalaga.

Sjálfsagt má deila um rökstuðning Landsréttar í eldra málinu enda má í flestum tilvikum rökstyðja að hinn brotlegi hagnist á brotinu með einhverjum hætti. Ólík niðurstaða í þessum tveimur málum kann að skýrast af því að í eldra málinu voru rétthafar einstaklingar sem ekki stunduðu atvinnustarfsemi og hinir brotlegu voru einnig einstaklingar sem höfðu stofnað lítið félag utan um hina brotlegu starfsemi án þess að beinn fjárhagslegur hagnaður hefði virst vera af starfsemi félagsins. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig framkvæmd í þessu efni þróast á næstu árum.

Höfundur er lögmaður og meðeigandi á LEX.




Umræðan

Sjá meira


×