Körfubolti

Lög­mál leiksins: Þetta er eins og í Kola­portinu

Sindri Sverrisson skrifar
Stephen Curry gæti alveg verið með betri liðsfélaga.
Stephen Curry gæti alveg verið með betri liðsfélaga. Getty/Kavin Mistry

Sérfræðingarnir í Lögmálum leiksins velta fyrir sér stöðu Golden State Warriors í þætti kvöldsins. Þeir segja liðið lélegt, þó að í því sé einn besti maður deildarinnar, og augljóslega í leit að heppilegum leikmannaskiptum.

„Skoðum Golden State. Þar er Steve Kerr að spila á tólf leikmönnum. Væntanlega er það eins og í Kolaportinu, þegar þú ert ekki með neitt baka til heldur setur allan lagerinn bara á borðið, í von um að einhver kaupi eitthvað af þér,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, en Lögmál leiksins fara í loftið á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20 í kvöld. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

„Manni líður eins og þeir séu bara: „Hérna eru leikmennirnir sem við höfum, viljið þið ekki dansa með okkur?“ Þá vantar eitthvað eitt „trade“,“ segir Leifur Steinn Árnason.

Hörður Unnsteinsson segir stóra tækifærið fyrir Golden State hafa falist í því að landa finnska landsliðsmanninum Lauri Markkanen.

„Sénsinn fór þegar Utah vildi ekki skipta á Lauri Markkanen. Það hefðu verið skiptin sem hefðu kannski ýtt þeim aftur í einhverja samkeppni. En núna eru þeir bara „play-in“-fóður,“ segir Hörður og Leifur bætir við:

„Þetta er bara svo erfitt fyrir þá. Ætla þeir að „tanka“, í nýlegri höll og með Curry sem er enn einn besti leikmaður deildarinnar, en samt með lélegt lið? Hvað ætla þeir að gera? Þeir þurfa augljóslega að ná skiptum ef þeir ætla að taka þátt í einhverju í vetur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×