Umræðan

Bitcoin, gull og hrá­vörur fá aukna at­hygli fjár­festa

Guðlaugur Steinarr Gíslason skrifar

Á undanförnum vikum hafa nokkrir af virtustu fjárfestum heims lýst áhyggjum sínum af óstöðugu efnahagsumhverfi í Bandaríkjunum. Sérstaklega hafa þeir áhyggjur af bandarískum ríkisskuldabréfum sem þeir telja ekki lengur bjóða upp á jafn örugga ávöxtun og þau hafa gert síðustu áratugina. Þess í stað hafa þeir sýnt aukinn áhuga á Bitcoin, gulli og öðrum hrávörum – eignaflokkum sem þykja ákjósanlegri á tímum hærri verðbólgu og óstöðugleika í heiminum.

Paul Tudor Jones, einn af áhrifaríkustu fjárfestum síðustu áratuga, lýsti í nýlegu viðtali við Bloomberg yfir áhyggjum sínum af mikilli skuldasöfnun Bandaríkjanna. Skuldir nema nú yfir 35.000 milljörðum Bandaríkjadala og vaxtagjöld orðin einn stærsti einstaki útgjaldaliður ríkisins. Hann telur að eini raunhæfi kosturinn úr núverandi stöðu sé hærri verðbólga og segir að „allar leiðir liggja til aukinnar verðbólgu,“ Þá bætir hann við að gull, Bitcoin og hrávörur ættu að skapa stærri sess í eignasöfnum fjárfesta og hann segist sjálfur fjárfesta í Bitcoin.

Stanley Druckenmiller tók í svipaðan streng og gagnrýnir stefnu Seðlabanka Bandaríkjanna sem hann telur fara of geyst í vaxtalækkunum. Hagvöxtur er enn hár, hlutabréfaverð er í hæstu hæðum og því telur hann Seðlabankann ganga of langt með því að lýsa yfir sigri gagnvart verðbólgu. Að hans mati eykur ósjálfbær halli ríkisfjármála, samhliða hröðum vaxtalækkunum, hættuna á hærri verðbólgu og er því ekki hissa á því að gull og rafmyntir eru byrjaðar að hækka í virði. Þá er hann með dágóða skortstöðu í bandarískum ríkisskuldabréfum þar sem hann veðjar á verðlækkanir skuldabréfa næstu misseri.

Breytt heimsmynd

Allt framangreint gefur sterka vísbendingu um að breytt heimsmynd blasi við fjárfestum í dag þegar virtustu fjárfestar heims virðast forðast skuldabréf sem er stærsti eignaflokkur í heimi. Fjárfestirinn Ray Dalio hefur einnig sagst frekar vilja eiga Bitcoin en skuldabréf og svo mætti lengi telja. Eru þessar skoðanir í línu við grein sem undirritaður skrifaði í nóvember 2023 þar sem fjallað var um minnkandi vægi skuldabréfa í eignasöfnum og samhliða skuldavanda Bandaríkjanna.


Höfundur er fjárfestingarstjóri Visku rafmyntasjóðs og einn af eigendum Visku Digital Assets ehf. og hefur yfir 15 ára reynslu af fjármálamörkuðum. Guðlaugur hefur sinnt fjárfestingum á rafmyntamörkuðum í fjölda ára og einnig fjárfest á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Guðlaugur er með M.Sc. gráðu í Fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.




Umræðan

Sjá meira


×