Íslenski boltinn

Stress og spenna hjá stuðnings­mönnum fyrir úr­slita­leikinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Guðmundsson kíkti á upphitun hjá stuðningsmönnum Víkinga fyrir leikinn.
Aron Guðmundsson kíkti á upphitun hjá stuðningsmönnum Víkinga fyrir leikinn. Vísir

Það var heldur betur fjör hjá stuðningsmönnum Víkings og Breiðabliks fyrir úrslitaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn þegar Nablinn og Aron Guðmundsson kíktu á stemmninguna fyrir leik.

Úrslitaleikur Víkings og Breiðabliks um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu er kominn af stað í Fossvoginum. Víkingum dugir jafntefli til að tryggja sér titilinn en Blikar þurfa sigur.

Fyrir leikinn kíktu þeir Aron Guðmundsson og Andri Már Eggertsson í heimsókn til stuðningsmanna liðanna. Víkingar hittust í Víkingsheimilinu og þá var einnig fjölmennt bakvið stúkuna og ljóst að taugar manna voru spenntar. 

„Þetta er stór dagur hjá okkur Víkingum. Afmæli og þessi hreini úrslitaleikur, þetta verður geggjað hér í kvöld,“ sagði Helgi Már Erlingsson stuðningsmaður Víkinga en hann á afmæli í dag og gæti því fagnað titlinum á afmælisdaginn.

„Þetta er búið að vera ótrúlega magnað sumar eins og sumarið í fyrra og þar áður. Þetta er búið að vera ævintýri og við ætlum að klára þetta í kvöld og loka þessu ævintýri,“ sagði Helgi í samtali við Aron en innslagið var sýnt í upphitun fyrir leikinn á Stöð 2 Sport.

Andri Már Eggertsson, eða Nablinn, eins og hann er oftast kallaður hitti stuðningsmenn Blika í Kópavoginum. Reyndar ekki í Smáranum heldur Kópavogsmegin í Fossvoginum og því ekki langt frá stuðningsmannasvæðinu og að vellinum sjálfum. Þar var rífandi stemmning.

„Ég er ekkert eðlilega stressaður. Ég held það sé enginn spenntur, það eru allir dauðstressaðir. Ég hef fulla trú á mínu liði og er ekkert eðlilega stoltur af þeim,“ sagði stuðningsmaður Blika og fékk góðar undirtektir í stuðningsmannahópnum.

Innslögin má sjá í spilurunum hér fyrir ofan en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og strax að leik loknum verður lokaþáttur Stúkunnar sýndur í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×