Skoðun

Kveðja frá „lata“ kennaranum sem er „alltaf í fríi“

Elva Björk Ágústsdóttir skrifar

Kennarastarfið hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga og er umræðan oft og tíðum mjög ósanngjörn. Þegar aðrar stéttir berjast fyrir bættum kjörum, eins og læknar, hjúkrunarfræðingar eða flugumferðastjórar verður umræðan ekki eins og hún er núna. Ég tek allavega ekki eftir því að þær stéttir þurfi að eyða öllu púðri í að sannfæra fólk um að það sé raunverulega að vinna þegar þær krefjast hærri launa eða fara í verkfall.

Ég var nýbyrjuð að starfa sem framhaldsskólakennari þegar við fórum í verkfall árið 2014. Þá fór mikil orka í það að útskýra fyrir fólki að kennarar væru nú í alvöru að vinna eitthvað en ekki alltaf í fríi eða búnir klukkan tvö á daginn. Margir sem ekki hafa unnið við kennslu og hafa einungis setið hinum megin við borðið halda að stundatafla nemenda sé sú sama og stundatafla kennarans. Þannig ef barnið þitt er búið í skólanum klukkan tvö á daginn þá hlýtur kennarinn að vera búinn líka. Mín reynsla af kennarastarfinu er sú að kennslan sjálf þ.e. tíminn þar sem nemendur eru fyrir framan mig er einungis brot af starfinu sjálfu. Líkt og arkitekt sem þarf að fá tíma til að hanna bygginguna eftir fund með viðskiptavini eða lögfræðingur sem þarf að hefja gagnasöfnun og aðra rannsóknarvinnu eftir að hafa hitt skjólstæðing sinn, þurfa kennarar að undirbúa hverja kennslustund með ólíkar þarfir nemenda í huga, fara yfir verkefni, eiga samstarf við aðra kennara og foreldra og margt fleira eftir að nemendur ganga út úr skólanum.

Núna erum við aftur komin á þennan stað, að reyna að sannfæra fólk um að við séum raunverulega að vinna. Borgarstjóri heldur til að mynda að við séum alltaf í fríi eða þykjast vera veik heima og nennum ekki að sinna nemendum. Þetta skrifa ég á fimmtudagskvöldi, klukkan að ganga 10 og ég er að fara yfir skýrslur nemenda minna. En nei nei kennarar eru bara aldrei að vinna!

Höfundur er sálfræðikennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×