Körfubolti

Adam Eiður: Þetta var við­bjóður

Gunnar Gunnarsson skrifar
Adam Eiður Ásgeirsson var svekktur í leikslok en þjálfarinn hans skrópaði í viðtöl eftir leik.
Adam Eiður Ásgeirsson var svekktur í leikslok en þjálfarinn hans skrópaði í viðtöl eftir leik. Vísir/Hulda Margrét

Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar, átti ekkert fleiri svör eftir leik heldur en lið hans í leiknum sjálfum við Njarðvík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, en Höttur tapaði 76-91.

„Við vorum undir í öllum þáttum leiksins. Við mættum ekki með ákveðnina sem þarf til að vinna góð körfuboltalið. Því fór sem fór – bara viðbjóður. Það var ekkert sem kom okkur á óvart. Þeir gerðu hlutina betur en við,“ sagði Adam Eiður.

Adam Eiður veitti viðtal eftir leikinn en Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, fór úr húsi um leið og liðið hafði farið stuttlega yfir leikinn inni í búningsklefa. „Við ræddum leikinn stuttlega, eins og venjulega. Síðan fórum við í sturtu,“ svaraði Adam Eiður aðspurður um hvað hefði verið talað um eftir leikinn.

Höttur vann fyrstu tvo leikina en hefur núna tapað tveimur. Það sem verra er að spilamennska liðsins í þessum tveimur tapleikjum var slæm.

„Það fylgir þessu skömm næstu daga þegar ég mæti í vinnuna og fer út í búð. En það er æfing á morgun þar sem við skoðum vídeóið og við sjáum hvað við þurfum að bæta fyrir næsta leik. Það eru 22 leikir í deildinni og þessi var sá fjórði. Við spiluðum fyrstu tvo leikina vel en síðan ógeðslega illa næstu tvo. Það er eitthvað sem við þurfum að finna út úr,“ sagði Adam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×