Íslenski boltinn

Stúku­menn svara stóru spurningunum fyrir úr­slita­leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikið hefur gengið á í leikjum Víkings og Breiðabliks undanfarin ár.
Mikið hefur gengið á í leikjum Víkings og Breiðabliks undanfarin ár. vísir/diego

Víkingur og Breiðablik mætast í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Víkinni í kvöld. Af því tilefni fékk Vísir sérfræðinga Stúkunnar, Albert Ingason, Baldur Sigurðsson, Atla Viðar Björnsson og Lárus Orra Sigurðsson, til að svara fimm spurningum um leikinn stóra.

Hvað mun ráða úrslitum?

Albert: Spennustigið og dagsformið. Það er búið að bíða lengi eftir þessum leik, eftirvæntingin er mikil og leikmennirnir eru væntanlega búnir að hugsa um hann lengi og það er allt undir. Bæði lið eru í geggjuðu formi, þetta eru tvö bestu lið landsins og núna er það bara undir þjálfurunum komið að stilla spennustigið rétt og fá leikmenn til að njóta leiksins. Við gætum alveg séð bæði lið taka litla áhættu. Föst leikatriði gætu spilað stórt hlutverk í þessum leik.

Baldur: Það verða markmenn liðanna og föstu leikatriðin. Ég sé stórkostlega vörslu í leiknum og jafnvel stórkostlegt mark úr aukaspyrnu í kortunum sem muni ráða úrslitum.

Anton Ari Einarsson hefur leikið sérlega vel í marki Breiðabliks seinni hluta tímabilsins.vísir/diego

Atli Viðar: Það er að einhverju leyti klisja en fyrir mér mun spennustigið ráða dálítið miklu. Ég hef reynslu af svona leik og mér er það ofboðslega minnisstætt að reyndustu menn og margir sem höfðu spilað stóra leiki sýndu alveg merki um smá taugaveiklun. Spennustigið var öðruvísi. Þessir leikmenn eru að fara að spila sinn stærsta leik á ferlinum. Ég held að spennustigið muni ráða miklu og reynir dálítið mikið á reyndustu leikmenn liðanna. Svo held ég að þjálfararnir muni spila stóra rullu; hvernig þeir munu bregðast við því ég held við munum sjá sviptingar í leiknum. Halldór Árnason hefur sýnt mér klókindi í síðustu leikjum, í skiptingum og öðru, þannig ég held að þjálfararnir muni hafa stór áhrif.

Lárus Orri: Hverjir ná að stilla spennustigið rétt.

Mun Evrópuleikurinn hjá Víkingi hafa áhrif? 

Albert: Ég tel að Evrópuleikurinn muni bara hafa jákvæð áhrif á Víkinga; að þessi sigur hafi gefið þeim helling og sé vítamínssprauta fyrir þennan leik, allavega til að byrja með. Að sjálfsögðu gætu þeir auðvitað orðið þreyttir þegar líða fer á leikinn. En Víkingur er bara með það mikla breidd þannig ég hugsa að Arnar Gunnlaugsson muni vera klókur með skiptingarnar. 

Baldur: Já, klárlega varðandi hvaða leikmönnum Arnar getur stillt upp í leiknum við Blika. Halldór Smári meiddist og verður líklega ekki klár og spurning með fleiri leikmenn en miðað við það sem maður sá þá ættu aðrir að hafa sloppið heilir. En á móti þá vann Víkingur gríðarlega öflugan sigur sem skilar miklu sjálfstrausti inn í liðið. Þannig að já leikurinn hefur klárlega áhrif en hversu mikil á eftir að koma í ljós.

Leikmenn Víkings fagna sigrinum á Cercle Brugge á fimmtudaginn. Víkingar unnu leikinn, 3-1, og fengu þar með sín fyrstu stig í Sambandsdeildinni.vísir/anton

Atli Viðar: Ég held að hann hafi einhver áhrif en ekki svo mikil. Auðvitað er erfitt að spila leik eftir að hafa bara hvílt í rúma tvo sólarhringa en ég held þeir taki miklu frekar það jákvæða og nýti Evrópuleikinn sem orku og sjálfstraust inn í þennan leik. Við sáum það í leiknum uppi á Skaga um daginn þar sem Víkingarnar byrjuðu mjög hægt eftir landsleikjahlé að þeir eru í þannig takti að þeir þurfa og vilja spila. Leikir á 3-4 daga fresti henta þeim best. Ég held að þeir ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur af því að hafa spilað þennan Evrópuleik.

Lárus Orri: Nei.

Hver er mikilvægasti leikmaðurinn á vellinum?

Albert: Höskuldur Gunnlaugsson. Það er hægt að taka svo marga hjá Víking. Það er nýr lykilmaður í hverjum mánuði en Höskuldur er alltaf langmikilvægasti leikmaður Breiðabliks og stígur alltaf upp þegar liðið þarf á honum að halda. Við sáum það bara gegn Stjörnunni í síðustu umferð. Ef Breiðablik ætlar að verða meistari þarf Höskuldur að eiga góðan leik og hann á yfirleitt alltaf góðan leik. Ísak Snær Þorvaldsson er að sjálfsögðu einnig gríðarlega mikilvægur fyrir Blika

Baldur: Í mínum huga verða markmenn liðanna það sem mun skilja á milli í leiknum. Liðin eru svo ótrúlega jöfn að getu og spennustigið verður það hátt að ég á von á lokuðum leik. Í þannig leik þurfa markmenn að eiga toppleik og taka vörslur sem munu á endanum tryggja sínu liði sigurinn. Ef ég þarf að velja á milli þá vel ég Anton Ara Einarsson.

Höskuldur Gunnlaugsson er markahæsti leikmaður Breiðabliks í Bestu deildinni. Hann hefur skorað níu mörk.vísir/viktor freyr

Atli Viðar: Það eru óvenju margir leikmenn inni á vellinum sem geta klárað leikinn, sérstaklega Víkingsmegin. Þeir eru með mjög marga sem geta stigið upp og tekið leikinn á sínar herðar. Hjá Blikum eru það tveir menn sem hafa, af mörgum öðrum tilkölluðum, borið uppi þessa velgengni síðustu viku. Það eru Ísak og Höskuldur og ef ég á að velja einn er það Höskuldur. Hann þarf að eiga súperleik ef Breiðablik á að standa uppi sem Íslandsmeistari.

Lárus Orri: Gunnar Vatnhamar.

Hversu miklu breytir það að Breiðablik þurfi að vinna?

Albert: Fyrsta klukkutímann held ég að það breyti engu. Eftir það, og ef allt er enn í járnum, gætum við séð skiptingar hjá Halldóri út frá því að Blikar þurfi að vinna leikinn. Með Víkinga þá er of hættulegur leikur að setja þetta upp að með það að jafntefli dugi þeim. Auðvitað getum við séð breytingu á því þegar það er stutt eftir.   

Baldur: Gamla klisjan segir að það sé nú bara jafnvel betra að þurfa bara að fara og vinna leikinn en ég á erfitt með að sjá Víkingana ætla að verja eitthvað jafntefli á heimavelli. Augljóslega eru þá Víkingarnir í betri stöðu komandi inn í leikinn og líklegri aðilinn. Ég vona aðallega, þrátt fyrir að ég hafi verið að spá lokuðum leik hér að ofan, að bæði lið horfi á leikinn þannig að þau verði að vinna hann og þar af leiðandi fáum við opinn og skemmtilegan leik með mikið af mörkum og dramatík á hæsta stigi.

Arnar Gunnlaugsson verður í banni í leiknum í kvöld.vísir/diego

Atli Viðar: Ég held að það sé betra fyrir Blikana að koma inn í þennan leik og þurfa að vinna. Þeir eru að sækja titil. Þeir hafa verið að elta Víkingana í allt sumar og hafa verið ólíklegri aðilinn. Að sama skapi er allt í lagi fyrir Víkinga að vera í þessari stöðu, að verja stigið sitt. Ég held að þetta hafi ekki stór áhrif að því leytinu til að Blikarnir hafa verið að máta sig við Víkingana í allt sumar og reynt að skáka þeim. Til að gera það þurfa þeir að mæta í leikinn og vinna.

Lárus Orri: Öllu þar sem ég held að leikurinn endi með jafntefli.

Hvort liðið verður meistari?

Albert: Víkingur. Ég held að Víkingar klári þetta.

Baldur: Breiðablik klárar þetta með dramatísku sigurmarki á 89 mín, jafnvel úr aukaspyrnu.

Viktor Karl Einarsson reynir skot að marki Víkings í leiknum gegn Breiðabliki 21. apríl. Víkingar unnu leikinn, 4-1. Liðin gerðu svo 1-1 jafntefli 30. maí.vísir/diego

Atli Viðar: Ég er algjörlega eins og lauf í vindi. Ég ætla að segja að Blikarnir mæti í Fossvoginn og sæki 1-2 sigur. Það er einhver tilfinning sem segir mér að þeir séu örlítið hungaðri og eigi aðeins meira til að kreista fram sigur. Þeir sækja 1-2 sigur og Höskuldur verður krýndur sem leikmaður mótsins. Það verða einhver sviptingar í þessu. Breiðablik kemst yfir en Víkingar jafna og það verður jafnt langt fram í leikinn. Svo munu Blikarnir skora eftir fast leikatriði, gott ef það verður ekki Damir Muminovic eða Viktor Örn Margeirsson.

Lárus Orri: Víkingar.


Tengdar fréttir

Svona voru hinir úrslitaleikirnir um titilinn

Öll augu verða á Víkinni í kvöld þegar Víkingur og Breiðablik mætast í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Bestu deild karla. Þetta er í fimmta sinn á síðustu 28 árum sem lið mætast í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Til að stytta biðina fram að leiknum í Víkinni rifjar Vísir upp hina fjóra úrslitaleikina.

Hert öryggisgæsla og 2.000 pallettur í Víkinni

Á morgun er stóri dagurinn. Víkingur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Víkinni og þar komast færri að en vilja. Skipulagsaðilar í Víkinni hafa þá haft að mörgu að huga.

Vilhjálmur Alvar dæmir úrslitaleikinn

Víkingur og Breiðablik mætast í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn annað kvöld. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson mun dæma leikinn í Víkinni.

„Undir niðri kraumar bullandi rígur“

Gríðarleg eftirvænting ríkir vegna úrslitaleiks Víkings og Breiðabliks um Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta. Liðin hafa marga hildi háð í baráttunni um titilinn síðustu ár, með tilheyrandi ríg á milli allra sem að þeim koma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×