Lífið

Tarsan-leikari látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ron Ely árið 1987.
Ron Ely árið 1987. AP

Bandaríski leikarinn Ron Ely, sem þekktastur er fyrir að hafa túlkað Tarsan í samnefndum sjónvarpsþáttum undir lok sjöunda áratugarins, er látinn, 86 ára að aldri.

Þættirnir voru sýndir á NBC á árunum 1966 til 1968.

„Heimurinn hefur misst einn stórkostlegasta mann sem hefur verið uppi og ég hef misst pabba minn,“ segir dóttirin Kirsten í yfirlýsingu.

Ely og fjölskylda hans rötuðu í fréttirnar árið 2019 þegar Valerie Lundeen Ely, eiginkona Ely, var myrt af syni þeirra hjóna, hinum þrítuga Cameron Ely. Hann var svo drepinn af lögreglu eftir morðið.

„Það sem veitir mér huggun nú er að vita að faðir minn er með móður minni og bróður. Það er líka það sem gerir mig leiða, þar sem ég sakna þeirra allra svo mikið,“ segir Kirsten.

Eftir að hafa farið með hlutverk Tarsan lék Ely meðal annars í sjónvarpsþáttum á borð við Wonder Woman, Fantasy Island og The Love Boat.

Síðasta hlutverk hans var í sjónvarpsmyndinni Expecting Amish frá árinu 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×