Bíó og sjónvarp

Hollywood stjörnur við Höfða

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
J.K Simmons og Jeff Daniels til hægri í hlutverkum sínum fyrir utan Höfða.
J.K Simmons og Jeff Daniels til hægri í hlutverkum sínum fyrir utan Höfða. Vísir/Vilhelm

Stórstjörnur úr Hollywood á borð við Jeff Daniels og J.K Simmons eru nú staddar í kvikmyndatökum við Höfða í Reykjavík. Fjölmennt tökulið auk mikils búnaðar er nú við sögufræga húsið.

Um er að ræða tökur á kvikmyndinni Reykjavik um fundinn mikilvæga milli þeirra Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev sem átti sér stað spennuþrungna helgi í Reykjavík árið 1986 þegar kalda stríðið stóð sem hæst. Tilkynnt var um gerð myndarinnar og að hún yrði tekin upp hér á landi í ágúst síðastliðnum.

Jeff Daniels vígalegur til vinstri.Vísir/Vilhelm
Fjölmargir leikarar koma að verkefninu.Vísir/Vilhelm

Tökurnar hafa vakið mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem Hollywood mynd er tekin upp í Reykjavík. Þannig hafa glöggir starfsmenn í turninum við Höfða rekið augun í Jeff Daniels í hlutverki sínu sem Reagan og í J.K Simmons sem fer með hlutverk utanríkisráðherrans George Schultz. Breski stórleikarinn Jared Harris fer svo með hlutverk leiðtoga Sovétríkjanna.

Núverandi stríðsátök innblástur

Í umfjöllun bandaríska miðilsins Deadline um kvikmyndina frá því í ágúst kemur fram að Michael Russel Gunn leikstýri myndinni eftir eigin handriti. Hann hafi lagst í miklar rannsóknir við skrif á handriti myndarinnar og þá hafi núverandi stríðsátök í Úkraínu orðið honum innblástur.

Tökurnar eru umfangsmiklar.Vísir/Vilhelm

Hugmyndin hafi kviknað þegar hann hafi farið á fund Shultz í Stanford í Bandaríkjunum, þar sem hann hafi fengið afhent leynileg gögn af fundinum. Gögn sem nú hafa verið opinberuð. Í ljósi stríðsátaka í Evrópu sé ætlunin að varpa ljósi á það hvernig megi ná sáttum á tímum stríðsátaka.


Tengdar fréttir

Stórstjörnur í kvikmynd um fundinn í Höfða

Leikarar á borð við Jeff Daniels, Jared Harris og J.K. Simmons eru væntanlegir hingað til lands í byrjun október til að leika í kvikmynd um fund Ronald Reagans fyrrverandi Bandaríkjaforseta og Mikhail Gorbatsjov fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna í Höfða í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×