Handbolti

Melsun­gen ekki í vand­ræðum með Val

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Agnar Smári átti fínan leik sóknarlega í liði Vals.
Agnar Smári átti fínan leik sóknarlega í liði Vals. Vísir/Anton Brink

Þýska félagið Melsungen var ekki í vandræðum með Val þegar liðin mættust í F-riðli Evrópudeildar karla í handbolta í kvöld, lokatölur 36-21. Þá átti Óðinn Þór Ríkharðsson frábæran leik og lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar unnu góðan sigur.

Valur sá í raun aldrei til sólar og var munurinn sjö mörk í hálfleik, staðan þá 17-10. Munurinn var kominn upp í níu mörk þegar Melsungen skoraði sjö mörk í röð um miðbik síðari hálfleiks og steindrap allar vonir Valsmanna. Á endanum var 15 marka munur þegar flautað var til loka leiks.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk í liði Melsungen á meðan Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Ísak Gústafsson skoraði fjögur mörk í liði Vals og Agnar Smári Jónsson skoraði þrjú ásamt því að gefa tvær stoðsendingar.

Í hinum leik F-riðils vann Porto fjögurra marka útisigur á Vardar, 22-26. Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði þrjú mörk í liði Porto.

Þorsteinn Léo er þekktur fyrir sín þrumuskot.Vísir/Anton Brink

Melsungen er því áfram með fullt hús stiga að loknum þremur leikjum, Port er með þrjú stig, Vardar tvö og Valur eitt.

Í H-riðli, þar sem FH leikur, unnu lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach sjö marka sigur á Toulouse, lokatölur 33-26. Gummersbach trónir á toppi riðilsins með fullt hús, Toulouse er með fjögur, FH með tvö eftir sigur í kvöld og Sävehof án stiga.

Í C-riðli skoraði Stiven Tobar Valencia fjögur mörk og gaf eina stoðsendingu í átta marka útisigri Benfica á Tatran Prešov, lokatölur 16-24.

Í hinum leik riðilsins vann Kadetten fjögurra marka útisigur á Limoges, 27-31. Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur hjá Kadetten með átta mörk ásamt því að gefa eina stoðsendingu.

Óðinn Þór átti hreint út sagt frábæran leik í kvöld.@ehfel_official

Benfica er á toppi C-riðils með fullt hús stiga eða sex talsins, Kadetten er þar á eftir með fjögur stig, Limoges tvö og Tatran Prešov án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×