Veður

Tví­skipt veður á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Það hvessir úr suðri í kvöld og í nótt.
Það hvessir úr suðri í kvöld og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lægð sem stödd er norðaustur af landinu veldur allhvassri eða hvassri norðvestanátt á norðaustan- og austanverðu landinu í dag og mun þar snjóa með vindinum. Akstursskilyrði geta því verið erfið á þessum slóðum, sérstaklega á fjallvegum og er ferðalöngum bent á að kanna aðstæður hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað.

Frá þessu segir á heimasíðu Veðurstofunnar þar sem fram kemur að síðdegis fjarlægist lægðin meira og þá lægi og létti til í umræddum landshlutum.

Veðrið á landinu í dag er tvískipt, á Suður- og Vesturlandi er hægur vindur og gert er ráð fyrir bjartviðri og því hinn fallegasti dagur í vændum.

„Í kvöld og nótt nálgast næsta lægð úr suðri. Á morgun er gert ráð fyrir austlægri átt, en vindur nær sér ekki á strik. Það má búast við úrkomu, sem ágerist eftir því sem líður á daginn og undir kvöld verður líklega rigning víða um land með hita á bilinu 2 til 8 stig,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austlæg átt 5-13 m/s. Dálítil væta á sunnanverðu landinu, en þurrt að kalla norðantil. Rigning víða um land seinnipartinn og hiti 2 til 7 stig.

Á fimmtudag: Norðvestan og vestan 10-18, hvassast við norðurströndina. Snjókoma eða slydda norðan- og vestanlands og hiti kringum frostmark. Þurrt að mestu á Suðausturlandi og Austfjörðum með hita að 7 stigum. Lægir um kvöldið, styttir upp og frystir.

Á föstudag: Sunnan 13-20 og rigning, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hiti 2 til 8 stig.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Vestlæg átt og skúrir eða él, en þurrt á austanverðu landinu. Hiti 0 til 6 stig yfir daginn.

Á sunnudag: Norðlæg átt með éljum á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunnantil. Víða vægt frost.

Á mánudag: Breytileg átt og snókoma eða slydda með köflum, en rigning við suðurströndina. Hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×