Sport

Sjáðu Þor­leif koma í mark: „Átti al­veg von á því að þetta færi í Ís­lands­met“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorleifur Þorleifsson sáttur eftir sigurinn í Bakgarðshlaupinu í nótt.
Þorleifur Þorleifsson sáttur eftir sigurinn í Bakgarðshlaupinu í nótt. vísir/viktor freyr

Sigurvegari Íslandshluta heimsmeistaramóts landsliða í bakgarðshlaupum, Þorleifur Þorleifsson, var sáttur eftir hlaupið í nótt. Hann segist hafa náð markmiði sínu.

Þorleifur endurheimti Íslandsmetið með því að hlaupa 62 hringi, eða 415,8 kílómetra.

„Ég er bara ánægður. Þetta var bara geggjað. Hvað á maður að segja? Þetta var það sem maður stefndi að og það tókst,“ sagði Þorleifur í viðtali við Garp I. Elísabetarson eftir hlaupið í nótt. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá Þorleif koma í mark.

Þorleifur segist alveg hafa búist við því að bæta Íslandsmetið.

„Ég var með nokkur markmið varðandi liðakeppnina og allt það. En svo var eitt persónulegt markmið, að hlaupa einn hring einn. Ég átti alveg von á því að þetta færi í Íslandsmet,“ sagði Þorleifur.

Þorleifur segir að liðsheildin hafi verið sterk hjá íslenska liðinu.

„Það eru allir að hjálpast að og allt. Þetta eru túrar upp og niður og þegar það eru niðurtúrar er maður ekkert að gefa af sér. Þá verða bara aðrir að gefa af sér. Þetta fer þannig í hringi. Það að gefa af sér og hjálpa gefur svo mikinn kraft. Maður fær mikið út úr því,“ sagði Þorleifur sem hljóp mikið við hlið Marlenu Radzizewsku undir lok hlaupsins.

„Þessir síðustu hringir sem ég var að hlaupa með Marlenu og var að ýta henni áfram. Þetta var líka þvílík hjálp fyrir mig. Þetta leið einhvern veginn svo hratt.“

Viðtalið við Þorleif má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×