Sport

Brjálaðist og grýtti pílu í spjaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nathan Aspinall brást illa við þegar útskot klikkaði hjá honum.
Nathan Aspinall brást illa við þegar útskot klikkaði hjá honum.

Enski pílukastarinn Nathan Aspinall missti stjórn á skapi sínu þegar hann klúðraði útskoti í leik á Players Championship. Hann á yfir höfði sér sekt.

Aspinall mætti Madars Razma í 2. umferð Players Championship í Wigan í gær. Aspinall sigraði Niels Zonnevield örugglega í 1. umferðinni en fann ekki sama takt gegn Razma.

Í stöðunni 4-4 gegn Razma fékk Aspinall tækifæri til að taka forystuna í viðureigninni. Hann þurfti að taka út fjörutíu en fyrsta pílan fór ekki á réttan stað. Ekki sú önnur heldur og þá trompaðist Aspinall.

Aspinall grýtti síðustu pílunni í spjaldið en baðst strax afsökunar. Razma vann leikinn á endanum, 6-4. Þrátt fyrir að síðustu pílunni hafi verið grýtt í bræði var Aspinall nálægt því að hitta í reit á spjaldinu.

Aspinall fór heim með þúsund pund (tæplega 180 þúsund íslenskar krónur) í verðlaunafé en hann gæti þurft að greiða eitthvað af því í sekt fyrir að grýta pílunni í spjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×