Körfubolti

Ó­trú­legur leikhluti Martins í naumum sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson á ferðinni í Berlín í kvöld.
Martin Hermannsson á ferðinni í Berlín í kvöld. Getty/Regina Hoffmann

Landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson gerði sér lítið fyrir og skoraði heil sautján stig í þriðja leikhluta, þegar Alba Berlín vann sinn fyrsta sigur í Evrópudeildinni (e. Euroleague) í körfubolta á þessari leiktíð.

Alba Berlín hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í keppninni, gegn Barcelona og Panathinaikos, en hafði betur eftir mikinn spennuleik gegn franska liðinu ASVEL Villeurbanne í Berlín í kvöld, 84-79.

Martin virtist hafa komið Alba Berlín í góð mál með ótrúlegri frammistöðu sinni í þriðja leikhluta, áður en honum var skipt af velli þegar þrjár mínútur voru eftir af honum. Þá var staðan 60-49 og Alba var tíu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 64-54.

alba Berlín var enn með átta stiga forskot þegar tvær og hálf mínúta voru eftir, 79-71, en þá skoruðu gestirnir fimm stig í röð og enn rúm mínúta eftir.

Þeir náðu svo að minnka muninn í tvö stig, 81-79, þegar 24 sekúndur voru eftir en Tim Schneider stóðst álagið á vítalínunni og kom Alba Berlín aftur fjórum stigum yfir þegar sextán sekúndur voru eftir. Næsta sókn gestanna klikkaði og Martin og félagar fögnuðu að lokum fimm stiga sigri.

Martin endaði sem stigahæsti maður vallarins þökk sé þriðja leikhlutanum, með alls 21 stig, og hann gaf tvær stoðsendingar og tók tvö fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×