Skoðun

#TakkEinar

Ólöf Elefsen skrifar

Það má alltaf finna eitthvað jákvætt við öll mál svo ég skal taka að mér að sýna ykkur það jákvæða við ræðu borgarstjórans og klappið sem hann uppskar í kjölfar hennar.

Ég vil byrja á því að segja #TakkEinar fyrir falleg orð um helgina. Þessi orð urðu til þess að ég tók ákvörðun um að segja upp starfi mínu og leita nýrra tækifæra á öðrum starfsvettvangi. Starfinu sem ég varði 5 árum í að mennta mig fyrir. Starfinu sem mér hefur alltaf fundist ég vera fædd til að starfa við og hef séð fyrir mér að vinna við svo lengi sem ég lifi. Starfinu sem ég var svo spennt fyrir eftir sumarfríið að ég gat ekki beðið eftir að starfsdögunum lyki svo ég gæti hafið störf með nemendum mínum.

#TakkEinar því ef það hefði ekki verið fyrir þín orð og klappinu sem fylgdi þeim, þá hefði ég sennilega haldið áfram að starfa sem kennari. Ég hefði haldið áfram að koma gjörsamlega örmagna heim eftir vinnudaginn og haft litla sem enga orku til að sinna börnunum mínum. Ég hefði haldið áfram að vinna miklu meira en 42,86 klukkustundir á viku. Ég hefði haldið áfram að gráta um mánaðamót þegar ég sæi hversu lítið ég fengi útborgað miðað við það mikla álag sem fylgir starfinu. Ég hefði haldið áfram að mæta í aukavinnuna mína, nýtt lausar stundir þar til að skipuleggja einstaklingsmiðað nám fyrir nemendur mína, en bráðum þarf ég ekki að gera neitt af þessu því ég neyðist til að finna mér nýjan starfsvettvang.

#TakkEinar fyrir að benda á veikindafjarvistir starfsmanna skóla. Í dag fór ég hins vegar ekki heim vegna veikinda, heldur fór ég bara heim. Ég er því ekki viss um hvort það teljist veikindi þegar maður getur ekki sinnt starfi sínu vegna þess að tárin streyma stjórnlaust. Þau streymdu stjórnlaust eftir að ég brotnaði saman þegar ég sagði yfirmanni mínum að ég ætlaði að finna mér annan starfsvettvang.

Enn og aftur, #TakkEinar.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×