Íslenski boltinn

Arnór Sveinn hættir að spila og verður aðstoðarþjálfari Breiðabliks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Sveinn Aðalsteinsson ásamt Halldóri Árnasyni, þjálfara karlaliðs Breiðabliks.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson ásamt Halldóri Árnasyni, þjálfara karlaliðs Breiðabliks. breiðablik

Löngum leikmannaferli Arnórs Sveins Aðalsteinsson lýkur í haust. Hann fer í nýtt hlutverk hjá Breiðabliki en hann hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins.

Arnór Sveinn er uppalinn hjá Breiðabliki, varð bikarmeistari með liðinu 2009, Íslandsmeistari 2010 og sneri aftur í Kópavoginn fyrir síðasta tímabil. Hann hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í haust en hann gæti lokið leikmannaferlinum með því að verða Íslandsmeistari með Breiðabliki. Blikar eru í 2. sæti Bestu deildarinnar með jafn mörg stig og topplið Víkinga en liðin mætast í lokaumferðinni.

Eftir tímabilið verða breytingar á þjálfarateymi karlaliðs Breiðabliks. Eyjólfur Héðinsson hættir sem aðstoðarþjálfari en hann hefur verið ráðinn deildarstjóri meistaraflokka félagsins. Við starfi aðstoðarþjálfara tekur Arnór Sveinn eins og fyrr sagði. Hann verður aðalþjálfaranum Halldóri Árnasyni til halds og trausts.

„Ég er gríðarlega stoltur af mínum tíma sem leikmaður og þeim þroska sem ég hef öðlast en nú finn ég að tímapunkturinn er réttur að stíga inní nýtt hlutverk. Ég hlakka til að vinna með Halldóri og teyminu í heild, strákana þekki ég vel og svo eru forréttindi að fá að starfa hjá mínu uppeldisfélagi,“ sagði Arnór Sveinn í tilkynningu frá Breiðabliki.

Arnór Sveinn, sem er 38 ára, lék sinn fyrsta leik með Breiðabliki 2003 og hefur leikið tæplega þrjú hundruð leiki fyrir félagið. Hann lék með Hønefoss í Noregi á árunum 2011-13, aftur með Breiðabliki 2014-17 og svo með KR 2017-22. Arnór Sveinn varð Íslandsmeistari með KR 2019. Hann lék tólf landsleiki á árunum 2009-12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×