Innlent

„Mér er létt að við séum búin að taka á­kvörðun um að slíta”

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir

Utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins segist vera létt yfir því að búið sé að taka ákvörðun um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Þetta skrifar Þórdís í færslu á Facebook nú fyrir stundu.

„Mér er létt að við séum búin að taka ákvörðun um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Það liggur fyrir að það er ekki lengur til staðar nægur vilji og sameiginleg sýn til þess að halda samstarfinu áfram. Nokkur mál sem oftast hafa verið nefnd til sögunnar og hefur steytt á milli flokkanna, einkum það sem snýr að orkumálum og málefnum hælisleitenda. En í mínum huga eru málin miklu fleiri og djúpstæðari. Enda þótti mér alls ekki sjálfgefið að halda áfram þegar Katrín lét af störfum. Þar kemur margt til,” skrifar Þórdís meðal annars.

Þá útlistar hún nokkur ólík málefnasvið þar sem stjórnarflokkarnir hafi ólíka sýn og nálgun á málefnin. Meðal annars nefnir hún einstaklingsfrelsi, ríkisfjármál, réttarríkið og öryggis og varnarmál svo fátt eitt sé nefnt.

„Stjórnmálin líkjast stundum leikriti, en þau eru það sannarlega ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá skyldu að vera afgerandi valkostur fyrir þá Íslendinga sem deila þeirri trú að framtíð Íslands sé best borgið á grundvelli víðsýnnar og þjóðlegrar framfarastefnu sem gæti hagsmuna okkar allra. Ég vona innilega að okkur beri gæfa til þess að halda út í kosningabaráttu þar sem við tölum um þau mál sem mestu skipta og að við nálgumst lýðræðið að virðingu. Ísland á það skilið,“ segir Þórdís ennfremur í færslu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×