Fótbolti

Hareide kallar Sæ­var Atla inn

Sindri Sverrisson skrifar
Åge Hareide hefur misst tvo öfluga leikmenn út eftir leikinn við Wales í gær.
Åge Hareide hefur misst tvo öfluga leikmenn út eftir leikinn við Wales í gær. vísir/Anton

Åge Hareide landsliðsþjálfari karla í fótbolta hefur bætt sóknarmanninum Sævari Atla Magnússyni í hópinn sem mætir Tyrklandi á mánudagskvöld.

Sævar Atli, sem leikur með Lyngby í Danmörku, gæti því spilað sinn sjötta A-landsleik á mánudaginn.

Hareide valdi 24 leikmenn fyrir leikina við Wales og Tyrkland, og sat Júlíus Magnússon hjá í 2-2 jafnteflinu í gærkvöld þar sem aðeins 23 leikmenn mega vera á skýrslu í hverjum leik.

Þeir Stefán Teitur Þórðarson og Jón Dagur Þorsteinsson fengu hins vegar báðir gult spjald í leiknum í gær og eru þar með komnir í leikbann vegna uppsafnaðra spjalda. Bannið taka þeir út á mánudaginn.

Hareide sagði á blaðamannafundi í gær að ekki yrði kallað í Albert Guðmundsson, sem sýknaður var af nauðgunarákæru á fimmtudaginn, jafnvel þó að það væri heimilt samkvæmt reglum stjórnar KSÍ.

„Ég hef ekki haft mikinn tíma til að tala við Albert. Ég sendi honum skilaboð. Ég veit að Jörundur Áki [Sveinsson], yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, talaði við hann," sagði Hareide á blaðamannafundinum í gærkvöld.

„Ég held að Albert þurfi tíma núna. Andlega eru dómsmál erfið. Ég er ekki viss um að við getum fengið það besta frá honum núna. Vonandi fáum við hann til baka í nóvember en við þurfum að spila gegn Tyrklandi án hans," sagði Hareide.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×