Fótbolti

Agüero fór með Barcelona fyrir dóm­stóla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joan Laporta, forseti Barcelona, sést hér með Sergio Agüero þegar Argentínumaðurinn tilkynnti að hann yrði að setja fótboltaskóna upp á hillu vegna hjartavandamála.
Joan Laporta, forseti Barcelona, sést hér með Sergio Agüero þegar Argentínumaðurinn tilkynnti að hann yrði að setja fótboltaskóna upp á hillu vegna hjartavandamála. Getty/Pedro Salado

Argentínski knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero fór í hart þegar kom að því að innheimta launin sem hann telur að Barcelona skuldi sér.

Agüero heldur því fram að Barcelona skuldi sér þrjár milljónir evra eða 450 milljónir króna. Þetta er frá því að félagið sagði upp samningi hans árið 2021. ESPN segir frá.

Agüero kom til Barcelona frá Manchester City árið 2021 og gerði tveggja ára samning við spænska félagið. Hann varð hins vegar að setja skóna upp á hillu vegna hjartavandamála sem komu upp í leik á móti Alavés.

Agüero tilkynnti það síðan í desember sama ár að hann myndi ekki spila fótbolta framar. Þá gerði sá argentínski starfslokasamning við Barcelona. Leikmaðurinn segir að félagið hafi ekki staðið við sitt og enn standi úti þessar 450 milljónir króna.

Dómsmálið kemur fram í ársskýrslu Barclona fyrir 2023-24 en mál Agüero er eitt af níu málaferlum sem Barcelona stendur í samkvæmt henni. Félagið hefur glímt við mikla fjárhagserfiðleika síðustu ár og hefur vegna þeirra þurft að taka erfiðar ákvarðanir.

Hvort þær standist allar lög verður að koma í ljós og lögfræðingar spænska félagsins hafa í það minnsta nóg að gera þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×