Leik lokið: Haukar - Grinda­vík 80-92 | Þægi­legt hjá Grinda­vík í Ólafs­sal

Siggeir Ævarsson skrifar
Valur-Grindavík05505
vísir/anton

Grindavík vann öruggan tólf stiga sigur á Haukum í Bónus-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Grindavík gerði út um leikinn í fyrri hálfleik og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Haukar tóku á móti Grindavík í Ólafssal í kvöld, eflaust staðráðnir í að spila betur en í fyrsta leik tímabilsins sem tapaðist með tæpum 30 stigum.

Grindvíkingar voru hins vegar bara of stór biti fyrir Hauka að kyngja í kvöld. Það var nokkuð jafnfræði með liðunum í blábyrjun, en Grindvíkingar leiddu engu að síður með átta eftir fyrsta leikhluta, 16-24. Ég veit ekki hvað Maté sagði við sína menn á milli leikhluta en það bar í það minnsta engan árangur.

Gestirnir byrjuðu annan leikhluta á að skora 13 stig án svars frá Haukum og gerðu í raun nokkurn veginn út um leikinn. Haukar áttu engin svör sóknarlega en eftir að hafa sett þrjá þrista í byrjun leiks settu þeir engan í öðrum leikhluta og nýtingin komin í 18 prósent.

Grindvíkingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir hlutunum í fyrri hálfleik og leiddu mjög örugglega í hálfleik, 29-50.

Haukamenn virkuðu ögn líflegri í upphafi síðari hálfleiks en fimm fyrstu körfur Grindavíkur voru þristar svo að bilið minnkaði lítið sem ekkert. Haukar náðu alls að minnka bilið um eitt stig, staðan 54-74 fyrir lokaátökin og Grindvíkingar virtust bara vera að bíða eftir því að leikurinn kláraðist á þessum tímapunkti.

Fjórði leikhluti leið síðan hjá án mikilla flugeldasýninga og Grindvíkingar fóru með öruggan sigur af hólmi, lokatölur 92-80.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira