Innlent

Farið yfir dóminn: Albert metinn trú­verðugri en konan

Samúel Karl Ólason skrifar
Albert Guðmundsson og lögmaður hans Vilhjálmur Vilhjálmsson í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr á árinu.
Albert Guðmundsson og lögmaður hans Vilhjálmur Vilhjálmsson í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr á árinu. Vísir/Vilhjálmur

Albert Guðmundsson var í dag sýknaður af ákæru um nauðgun en dómari málsins mat framburð hans trúverðugari en framburð konunnar sem kærði hann. Þá er hún sögð hafa verið margsaga í framburði sínum.

Málið byggði að mestu á framburði Alberts og konunnar, auk framburði nokkurra vitna, og þykir tímalína málsins styðja framburð Alberts betur en framburð konunnar.

Önnur kynferðismök en samræði

Eins og fram hefur komið var Albert kærður fyrir nauðgun en hann var sakaður um að hafa stungið fingrum í leggöng konu og sleikt kynfæri hennar, þrátt fyrir að hún hafi „ítrekað beðið hann um að hætta, hafi grátið, reynt að ýta ákærða frá og hafi reynt að halda fyrir kynfæri sín“, eins og það er orðað í dómnum.

Konan fór fram á miskabætur upp á þrjár milljónir króna.

Í dómnum segir að þau hafi hist á skemmtistaðnum Auto aðfaranótt sunnudags þann 25. júní 2023. Þegar skemmtistaðnum var lokað um 4:30 fóru þau og aðrir í hóp í íbúð þar sem konan bjó með kærasta sínum, þegar hún var á Íslandi.

Hún sagði að þar hefði fólk getað beðið eftir leigubíl en aðrir sem rætt var við við rannsókn málsins sögðu að um eftirpartí væri að ræða. Þá segir í dómnum að vitnum beri ekki saman um hvort hópurinn hafi komið í íbúðina í einu lagi eða tvennu og eða hvort Albert hafi komið í fyrsta hópnum eða þeim síðari.

Allir voru þó sammála um hverjir hefðu verið í íbúðinni. Þar mun Albert hafa verið auk konunnar og fimm vitna. Albert og konan enduðu ein vakandi í íbúðinni en fyrir dómi kom fram að hann hefði þekkt bróður hennar lengi.

Albert mun hafa verið í stofunni með einu vitnanna þegar konan kom úr svefnherberginu. Umrætt vitni segir hana hafa verið í bol og á nærbuxunum en með sæng. Vitnið sagði konuna hafa sest þétt upp að Albert í sófanum en tíu mínútum síðar hafi hann farið.

Konan segist hafa komið fram úr svefnherberginu í bol og í nærbuxum en með sæng vafða um sig svo ekki hafi sést að hún hafi verið á nærbuxunum. Þá sagði hún að Albert hefði setið í einum enda sófans og hún hafi sest í hinn endann. Hún sagði einnig að áðurnefnt vitni hafi ekki setið í stofunni heldur hafi Albert verið einn þegar hún fór fram.

Albert hélt því einnig fram að vitnið hefði verið í stofunni og að þau þrjú hefðu talað saman í allt að tíu mínútur áður en vitnið fór út.

Ekki sammála um lengd samtals

Bæði konan og Albert eru sammála um að hann hafi haft áðurnefnd kynferðismök við hana en eru ósammála um hvort það hafi verið með samþykki hennar eða ekki.

„Þá ber þeim ekki saman um aðdraganda þessa eða eftirmála, eða hvort A [Konan] hafi í verki tekið þátt í hinum kynferðislegu athöfnum þannig að ákærði [Albert] hafi mátt ætla að samþykki hennar lægi fyrir. Þeim ber saman um að hin kynferðislega háttsemi hafi hætt, en greinir á um hvers vegna og hversu lengi hún varði,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Eftir á segjast þau þó bæði hafa talað saman en ber ekki saman um hve lengi og um hvað. Konan segir þau hafa talað saman í stutta stund en Albert segir samræðurnar hafa staðið yfir í allt að tvær klukkustundir.

Hann leigði Hopp-hlaupahjól nærri íbúðinni klukkan 8:05 um morguninn.

Eftir að hann fór hringdi konan í vinkonu sína og ræddi við aðra í íbúðinni og sagði þeim frá atvikum næturinnar. Hún mun einnig hafa hringt í kærasta sinn, sem var ekki í íbúðinni, og foreldra sína.

Daginn eftir, á mánudeginum, leitaði hún svo á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis en var sagt að koma daginn eftir. Í dómnum segir að líkamsskoðun hafi einhverra hluta vegna ekki farið fram heldur eingöngu tekið viðtal við hana.

Engin skoðun vegna mistaka

Þegar konan mætti á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, á mánudeginum, var hún beðin um að bíða í tjaldi á biðstofunni. Hún bað um að fá skoðun og sagðist hafa nefnt að Albert hefði verið harðhentur við sig.

Henni var þó sagt að koma daginn eftir. Á þriðjudeginum var hringt í hana og sagt að næsti lausi tími væri degi síðar, miðvikudaginn 28. júní. Konan bað um að fá að komast að á þriðjudeginum en fékk ekki.

Hjúkrunarfræðingur sem bar vitni segir að mistök hefðu verið gerð þegar konan leitaði fyrst á neyðarmóttökuna. Rætt hafi verið við hana á biðstofunni, sem sé almennt ekki gert. Engin skoðun hafi farið fram og neyðarmóttakan hafi ekki verið upplýst um að fingur hefði verið settur inn í leggöng hennar.

Hjúkrunarfræðingurinn sagði einnig að konan hefði verið skýr í frásögn sinni á miðvikudeginum en ekki liðið vel. Hún hefði titrað, núið saman höndum og verið óróleg.

Hún hefði sagt svo frá að hún hefði háttað sig eftir að aðrir voru farnir og hún hafi verið ein eftir með vini bróður síns. Hún hafi verið með sektarkennd og afsakað sig fyrir að hafa aðeins verið á nærbuxum.

Þá sagði hjúkrunarfræðingurinn að fram hefði komið að konan hefði fengið kvíðakast á mánudeginum. Hún hefði öskrað og grátið í koddann, svo kærastinn hennar hefði orðið hræddur.

Engin líkamsskoðun var framkvæmd á miðvikudeginum.

Kærði niðurfellingu

Þriðjudaginn 27. júní sendi konan Albert skilaboð á Instagram og ræddu þau saman. Í dómnum segir að hann hafi ekki kannast við að hafa brotið gegn henni en að hún hafi lýst þeirri afstöðu sinni að „hin kynferðislega háttsemi“ hafi ekki verið með vilja hennar.

Það var svo þann 22. ágúst 2023 sem konan lagði fram kæru og gaf hún skýrslu þann dag og síðar þann 7. nóvember.

Í febrúar var henni tilkynnt að ekki væri talið að gögn málsins væru líkleg til sakfellingar og að málið yrði fellt niður. Hún kærði þá niðurstöðu þann 19. mars og felldi ríkissaksóknari ákvörðun héraðsaksóknarar niður. Þá var ákæra gefin út þann 6. júní.

Sagði kæruna óskiljanlega

Albert sagði fyrir dómi að hann hefði verið á Auto og setið þar við svokallað flöskuborð. Konan hafi komið þangað seinna um nóttina og hún hafi verið mikið í kringum borðið sem hann sat við.

Þegar skemmtistaðnum var lokað sagðist Albert hafa verið fyrir utan hann um tíma, þar til hann heyrði í þeim sem hafði leigt flöskuborðið og þá var sá kominn heim til konunnar.

Seinna meir, þegar þau sátu á sófanum, sagði Albert að þau hefðu byrjað að kyssast og snerta hvort annað.

„Ákærði kvaðst hafa kysst A á hálsinn, en hún þá lyft toppnum upp fyrir brjóst og hann kysst á henni brjóstin. Þegar hann hafi verið að kyssa á henni brjóstin hafi hún sjálf farið úr nærbuxunum og hann þá farið niður á hana. Hann hafi átt við hana munnmök, sett einn fingur inn í leggöng hennar og puttað hana í örskamma stund,“ segir í dómnum.

Hann sagði konuna þá hafa beðið hann um að bíða og að hún hafi þá ekki verið í sama gír og áður. Hún hefði þó ekki beðið hann um að hætta.

„Hún hafi hins vegar sagt að þau gætu ekki haldið framhjá og að hún væri ömurleg kærasta. Hún hafi á þeim tímapunkti verið orðin leið en ekki fellt tár.“

Albert sagði einnig að hann hafi einu sinni spurt konuna hvort þau ættu að „gera þetta“ og hún hafi svarað því játandi. Hann sagði hana aldrei hafa reynt að ýta honum frá, frekar öfugt, og hún hafi aldrei sagt að hann væri að meiða hana.

„Sagði ákærði að kæran væri óskiljanleg. Kvaðst ákærði vita hvað væri rétt og að hann hefði aldrei brotið gegn A. Þau hafi hins vegar bæði verið að halda framhjá mökum sínum. Kvaðst ákærði þekkja það af eigin reynslu að framhjáhaldi fylgi samviskubit.“

Þá sagði hann að á miðvikudeginum hafi hann sent henni skilaboð á Instagram sem hún hafi svarað. Þá hafi komið fram að hún hafi verið mótfallin því sem gerðist og það hafi komið honum í opna skjöldu. Það hafi ekki verið hans upplifun.

Sagði Albert þekktan fyrir óviðeigandi hegðun

Konan sagði fyrir dómi að hún hefði verið í útskriftarveislu hjá kærasta vinkonu sinnar og að hún hafi seinna rætt við vitnið sem leigði flöskuborðið og að sá hafi beðið hana um að koma á Auto. Þar hafi hún hitt Albert og kærustu hans, sem fór snemma heim.

„Greindi A[Konan] einnig frá því að ákærði og B[Vitnið sem leigði flöskuborðið] hefðu látið eins og þeir væru „kóngarnir“ á Auto þessa nótt. Ákærði hafi ekki viljað fá kærasta vitnisins E inn á Auto og sagt það við hana. Allt hafi annars gengið vel og um ótrúlega skemmtilegt kvöld hafi verið að ræða. Eftir á og við meiri umhugsun hafi henni þó fundist andrúmsloftið hafa verið smáskrítið.“

Hún sagði einnig að Albert hefði ekki sýnt sér óviðeigandi hegðun á skemmtistaðnum en hann væri „þekktur fyrir að vera svolítið óviðeigandi“.

Þá sagði konan að þegar staðnum hafði verið lokað hafi Albert og fleiri þrýst á hana til að halda eftirpartý. Hún hafi látið undan þeim þrýstingi og sagt að fólk gæti beðið eftir leigubíl í íbúð hennar.

Hún sagði að vitnið sem nefnt er B í dómnum hafi farið í svefnherbergi hennar til að hlaða síma sinn og hafi lagst upp í rúm hennar. Konan sagðist hafa reynt að ná honum út og að hann hafi verið mjög óviðeigandi í hennar garð.

Hann hafi meðal annars rætt um að hafa fundið titrara undir sænginni og að hann langaði að sjá hana með hann. Albert tók á þessum tíma mynd af þeim, þar sem hún sat klofvega á honum. Hún segist ekki hafa orðið vör við það.

Sagðist hafa reynt að halda fyrir kynfæri sín

Konan sagði svo að þegar Albert hafi verið einn í stofunni hafi hún sest á sófann á endann sem hann sat ekki á. Við skýrslutöku sagðist hún hafa sest fyrst og að Albert hefði sest við hlið hennar. Fyrir dómi sagði hún mögulegt að hún hefði sest fyrst og farið í símann.

Þá sagði hún að Albert hefði byrjað að tala um að hún hefði lítið sjálfstraust og að vinahópur bróður hennar hefði rætt um hana á kynferðislegan hátt. Hún sagðist hafa beðið hann um að hætta að tala svona óviðeigandi við sig.

Konan sagði einnig að Albert hefði spurt hana af hverju hún kæmi ekki í heimsókn til hans þar sem hann bjó erlendis og að makar þeirra þyrftu ekki að vita af því.

Hún sagði að hann hefði byrjað að strjúka á henni fótinn og að hún hafi gefið skýrt til kynna að hún vildi það ekki.

„Þá kvaðst hún hafa vikið sér undan tilraunum ákærða til að kyssa hana. Áður en hún hafi vitað hafi ákærði verið búinn að setja fingur inn í leggöng hennar og verið harðhentur. Hún vissi ekki hve marga fingur hann hefði notað til þess. Hún hafi reynt að halda höndum sínum fyrir kynfæri sín.“

Þá sagðist hún ekki hafa farið úr nærbuxunum heldur hefði hann tekið þær til hliðar. Hún sagðist hafa frosið í fyrstu og síðar farið að gráta. Við það hafi Albert spurt hana hvers vegna hún væri að gráta og hvort hún vissi hvernig það léti honum líða. Því næst hafi hann sleikt á henni kynfærin.

„A kvaðst ekki hafa þorað að standa upp. Hún kvaðst þó oft hafa beðið ákærða um að hætta og hann hafi bæði séð og heyrt að hún vildi þetta ekki. Kvaðst hún hafa sagt að sérþætti þetta vont og vildi ekki að hann gerði þetta. A kvaðst hafa horft niður í „eina sekúndu“ er ákærði hafi verið að veita henni munnmök og oft endurlifað þá sýn síðar. Ákærði hafi hvorki hugsað um hana né virt tilfinningar hennar.“

Konan sagði Albert hafa hætt þegar hún spurði hvort bíllinn hans væri ekki að koma og fengið hann til að kíkja á síma sinn.

Deilt um mynd

Hún sagði einnig að þau hefðu talað saman í stutta stund en að hún hafi ekki munað um hvað. Hún hafi eingöngu viljað fá hann út svo hún gæti hringt í kærasta sinn og móður. Þá hafi hann nefnt að enginn þyrfti að frétta af því sem hefði gerst og að hann hafi hótað því að sýna kærasta hennar myndina sem hann tók af henni sitjandi klofvega á einu vitnanna í málinu.

Það þvertók Albert fyrir að hafa gert og sagðist hann ekki hafa rætt myndina við konuna. Dómarinn segir þó í dómnum að konan hafi nefnt myndina við móður sína næsta dag og vandséð sé hvernig hún hafi átt að vita af myndinni ef hann hefði ekki sagt henni frá henni.

Hún neitaði einnig fyrir dómi að hafa lyft bolnum eða farið úr nærbuxunum og sagði Albert aldrei hafa spurt sig hvort hún vildi þetta. Hún hafi engan áhuga haft á honum og gert honum það ljóst með orðum og athöfnum.

Aðspurð um ölvunarástand þeirra beggja sagði hún að þau hefðu bæði verið ölvuð en hvorugt ofurölvi.

Hún sagðist ekki hafa lagt fram kæru strax, því um stóra ákvörðun væri að ræða gegn manni sem hún hefði þekkt lengi. Þar að auki hafi hún ekki viljað að þetta truflaði nám hennar ytra.

Orð gegn orði

Í niðurstöðu dómara segir að ekki njóti við sýnilegra sönnunargagna í málinu sem geti varpað ljósi á atvik þess. Því ráðist lyktir málsins að miklu leyti á mati á trúverðugleika framburðar Alberts annars vegar og konunnar hins vegar, þar sem orð standi gegn orði.

Þar kemur fram að „sá atburður sem mál þetta er sprottið af“ hafi orðið einhvern tímann á milli sex og átta um morguninn. Á þeim tíma hafi Alberg og konan verið ein og það fari gegn frásögn hennar um að tuttugu til 25 mínútur hafi liðið frá upphafi hinnar kynferðislegu háttsemi þar til Albert hafi farið út.

Miðað við tímalínuna og framburð vitna sé líklegt að atvikið hafi átt sér stað um sex leytið.

Þá bendir dómarinn á að Albert hafi sagt hjá lögreglu að hin kynferðislega háttsemi hafi staðið stutt yfir en hann og konan hefðu talað lengi saman, eða í allt að tvo tíma. Það kom einnig fram í skilaboðum hans til hennar nokkrum dögum síðar.

„Okei whatttttt“

Þá segir dómarinn að skilaboðin þeirra á milli á Instagram gefi ekki annað til kynna en að það hafi komið Albert í opna skjöldu að konan hafi haldið því fram að hún hefði ekki verið samþykk því sem gerðist þeirra á milli.

„A segir meðal annars í skilaboðum sínum til ákærða 27. júní 2023 að hún hafi verið grátandi og ekki viljað „þetta“ og ákærði viti það vel. Ákærði svarar: „Okei whatttttt“. Ákærði heldur áfram: „Fyrsta lagi, þá í smá sjokki að þú hafi upplifað þetta þannig og finnst það leiðinlegt“.

„Hafi upplifað þetta þannig? Ég sagði oft að mig langaði þetta alls ekki“, segir þá A.

Ákærði svarar: „Ég lá í þessum sófa þegar þú komast í hann hálf nakin til min þanngað?“ Ákærði heldur áfram: „Og þegar þu sagðist viljastoppa þá stoppaði eg? Og við hættum þá bara“.

Undir lok samskipta þeirra á Instagram skrifaði Albert: „En ég samt skil ekki alveg, við spjölluðum heil lengi eftir þetta (um basically allt) og þú kysstir mig bæ-ég vissi ekki af neinu vondu vibei“.

Þá bætti hann við:

„Shit mér liður fáranlega illa að þér liði svona og þá var angrins það seinaasta sem eg varað búast við“

Hún sagðist ekki sammála þessu og sagðist hafa farið að gráta um leið. Hann hafi spurt hana af hverju hún væri að gráta en haldið áfram og reynt að kyssa hana.

Albert svaraði og sagðist hafa hætt um leið og hún hafi byrjað að tárast. Þá hefði hann ekki byrjað heldur hafi hún farið úr fötunum í sófanum.

Síðar segist hún ekki hafa hætt að titra síðan hann fór og hún hafi heldur ekki getað sofið, því henni liði svo illa.

„Ég veit að ég bað þig um að hætta löngu áður en þú hættir og þú getur ekki sagt mér að þú hafir ekki haldið áfram eftir að þú sást mig gráta..Þú heyrðir í mér þegar ég sagði að mér þótti þetta ogeðslega vont því þú varst svo harðhentur en hunsaðir það,“ sagði hún.

Hann svaraði: „Okei A ég spurði þig mjööög skýrt amk 1x hvort þú vildir gera þetta“ [...] „Ég var ekki að þvinga þig eða pína þig í neitt að minu mati, og ef það hafi verið þannig þá hefði líklega vinir þínir heyrt í okkur inni herb og stoppað það right?“

Dómarinn segir þetta gefa glögglega til kynna hversu frábrugðin upplifun þeirra var af því sem gerðist þeirra á milli, þegar þau voru ein eftir í stofunni. Framburðir þeirra, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hafi í öllum meginatriðum verið í takti við afstöðu þeirra.

„Stendur þar orð gegn orði, eins og áður segir.“

Þá segir í dómnum að ljóst sé að Albert verði „ekki sakfelldur á þeim forsendum einum að viðbrögð ætlaðs brotaþola og líðan eftir ætlað brot renni stoðum undir framburð hennar í málinu og að sök ákærða teljist þar með sönnuð. Frekari sönnunargagna er þörf svo að unnt sé að refsa fyrir nauðgun. Það er einnig skilyrði þess að unnt sé að refsa fyrir nauðgunsamkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga að brot hafi verið framið af ásetningi, sbr. 18. gr. sömu laga.“

Framburður Alberts trúverðugur

Í dómnum segir einnig að það verði að teljast að framburður Alberts um það sem gerst hafi um nóttina hafi heilt yfir verið staðfastur, skýr og trúverðugur. Hann hafi alltaf verið sjálfum sér samkvæmur og að innra samræmi í framburði hans sé gott.

Vitni hafi sömuleiðis sagt að honum hafi brugðið mjög við að heyra um ásakanirnar gegn honum og það sé í samræmi við viðbrögð hans við skilaboðunum frá konunni og framburð hans fyrir dómi.

Konan sögð margsaga

Þegar kemur að konunni telur dómarinn að þó hún hafi verið staðföst í því frá fyrstu stundu að brotið hafi verið á henni, hafi framburður hennar um önnur atriði breyst nokkuð eftir því sem liðið hefur á meðferð málsins. Það komi niður á trúverðugleika framburðar hennar.

Hún hafi meðal annars verið margsaga um það í hvaða fötum hún hafi verið þegar Albert átti að hafa brotið gegn henni, hvenær hún hafi skipt um föt og um önnur atvik.

Þá hafi hún ekki nefnt vitnið sem sat í fyrstu með henni og Albert í stofunni og hafi jafnvel haldið því fram að viðkomandi hafi ekki verið í íbúðinni nema í stutta stund og hafi verið farinn áður en hún kom fram í stofuna.

Dómarinn segir að telja verði sannað að vitnið hafi verið í stofunni með þeim um stund.

Þá samrýmist ætlaðar tímasetningar þennan morgun betur framburði Alberts en hennar, eins og farið var yfir hér að ofan.

Önnur gögn takmörkuð

Í niðurstöðu dómarans segir að hinn ákærði teljist saklaus uns sekt hans hafi verið sönnuð fyrir dómi. Framburður Alberts hafi verið metinn trúverðugur.

Þá byggi ákæran fyrst og fremst á framburði konunnar en „mótsagnir, ónákvæmni, misræmi og eyður“ í frásögn hennar og eyður í samtölum og samskiptum fyrst á eftir, dragi verulega úr trúverðugleika framburðar hennar.

Önnur gögn séu takmörkuð og engan veginn fullnægjandi svo hægt sé að álykta um sekt Alberts.

„Að öllu framangreindu virtu og að teknu tilliti til þeirra sönnunarkrafna sem gerðar eru í sakamálum, sem vikið var að hér að framan, verður ekki séð að lögfull sönnun sé komin fram um sekt ákærða. Verður með öðrum orðum ekki talið að það sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa í málinu að ákærði hafi haft kynferðismök við vitnið A umrædda nótt, án hennar samþykkis, eða að öðru leyti viðhaft þá háttsemi sem lýst er í verknaðarlýsingu ákæru, umfram það sem hann hefur sjálfur kannast við,“ segir í dómnum.

Albert var því sýknaður.

Allur sakarkostnaður mun greiðast úr ríkissjóði. Þar á meðal eru greiðslur til Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, lögmanns Alberts, og til Evu Bryndísar Helgadóttur, lögmanns konunnar, upp á 4.687.200 krónur. Annar sakarkostnaður er 399.906 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×