Ó­trú­leg endur­koma Brig­hton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Welbeck reyndist hetja Brighton.
Welbeck reyndist hetja Brighton. EPA-EFE/VINCE MIGNOTT

Brighton & Hove Albion vann frábæran 3-2 endurkomusigur á Tottenham Hotspur í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu.

Tottenham, sem lagði Manchester United örugglega 3-0 á Old Trafford í síðustu umferð, mætti fullt sjálfstrausts til Brighton og það sást í fyrri hálfleik. Eftir aðeins 23. mínútna leik lagði Dominic Solanke boltann á hinn sjóðheita Brennan Johnson sem skoraði með góðu skoti innan vítateigs og staðan orðin 0-1.

Gestirnir tvöfölduðu forystu sína áður en fyrri hálfleik var lokið. Timo Werner lagði boltann þá á James Maddison sem skoraði með nákvæmu skoti niðri í hægra markhornið og staðan 0-2 í hálfleik.

Eitthvað hefur hinn 31 árs gamla Fabian Hürzeler, þjálfari Brighton, sagt við sína menn í hálfleik því allt annað var að sjá heimaliðið í síðari hálfleik. Það voru aðeins þrjár mínútur liðnar þegar Kaoru Mitoma sendi hnitmiðaða sendingu inn á vítateig þar sem Yankuba Minteh skilaði boltanum í netið og staðan orðin 1-2.

Þegar rétt rúm klukkustund var liðin var Mitoma aftur á ferðinni. Hann lagði boltann á Georginio Rutter sem skoraði með frábæru skoti og staðan orðin jöfn 2-2. Það var svo Rutter sem lagði upp sigurmarkið þegar hann gaf boltann fyrir markið og Danny Welbeck skallaði í netið af stuttu færi.

Endurkoman fullkomnuð á 66. mínútu og þó gestirnir hafi gert hvað þeir gátu til að jafna tókst þeim það ekki og 3-2 sigur Brighton staðreynd. Eftir sigurinn er Brighton með 12 stig í 6. sæti að loknum sjö umferðum á meðan Tottenham er í 9. sæti með 10 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira