Fótbolti

Kallað í Óskar vegna ó­vissu um Kristian

Sindri Sverrisson skrifar
Óskar Borgþórsson skoraði mark Íslands gegn Wales í síðasta leik U21-landsliðsins, í september.
Óskar Borgþórsson skoraði mark Íslands gegn Wales í síðasta leik U21-landsliðsins, í september. vísir/Anton

Óskar Borgþórsson, leikmaður Sogndal í Noregi, hefur verið kallaður inn í U21-landsliðið í fótbolta fyrir leikina mikilvægu við Litháen og Danmörku í undankeppni EM.

Óvissa ríkir um þátttöku Kristians Hlynssonar, miðjumanns Ajax, í leikjunum og því ákvað Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari U21-landsliðsins, að kalla í Óskar.

Kristian var ekki valinn í A-landsliðið og sagði Åge Hareide það vegna þess að hann hefði ekki spilað nógu mikið að undanförnu

„Kristian glímdi við minniháttar meiðsli í aðdraganda síðustu landsleikja [í september]. Hann hefur ekki verið að spila mikið með Ajax.

Hann þarf að byggja sig upp aftur svo kannski væri best að hann spili með U21-landsliðinu, til að fá mínútur í lappirnar. Svo verðum við að sjá hvort hann ráði við það. Ég ræddi við hann, á leið með Ajax í Evrópukeppni, og vonandi fær hann mínútur þar og leiki með U21-landsliðinu. Það er mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Hareide.

Kristian spilaði svo þennan Evrópuleik, sem var gegn Slavia Prag á útivelli, en meiddist í leiknum.

Óskar skoraði eina mark Íslands í 2-1 tapinu gegn Wales í síðasta leik U21-landsliðsins, þrátt fyrir að hafa komið inn á þegar aðeins örfáar mínútur voru eftir af leiknum. Hann kom einnig inn á í 4-2 sigrinum gegn Danmörku nokkrum dögum fyrr en lék þá tæpan hálftíma.


Tengdar fréttir

Kristian ekki spilað nóg en fer í U21

Kristian Nökkvi Hlynsson, miðjumaður Ajax, er í U21-landsliðshópnum fyrir komandi leiki í undankeppni EM eftir að hafa ekki verið valinn í A-landsliðið sem spilar á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×