Veður

Stormur við suð­austur­ströndina

Atli Ísleifsson skrifar
Víða á landinu verður strekkingur en gengur í hvassviðri eða storm við suðausturströndina. Myndin er tekin í Reynisfjöru.
Víða á landinu verður strekkingur en gengur í hvassviðri eða storm við suðausturströndina. Myndin er tekin í Reynisfjöru. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðaustlægri átt í dag þar sem víða verður strekkingur en gengur í hvassviðri eða storm við suðausturströndina. Búið er að gefa út gula viðvörun fyrir Suðausturland.

Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Gera má ráð fyrir skýjuðu og lítilsháttar vætu á austanverðu landinu, en yfirleitt bjart og þurrt sunnan- og vestanlands.Hiti verður á bilinu eitt til tíu stig að deginum og mildast suðvestantil.

Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út á Suðausturlandi og gildir hún milli klukkan 11 og 23 í dag. Segir að búast megi við norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu þar sem hvassast verður í Öræfum og hviður staðbundið þar yfir 35 metra á sekúndu. Varasamt ferðaveður.

„Svipað veður næstu daga, norðaustankaldi en hvassara suðaustantil. Skýjað og dálítil él norðan- og austantil en léttskýjað á Suður- og Vesturlandi.

Kólnar smám saman í veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðaustan 5-13 m/s, en hvassara suðaustantil. Skýjað með köflum og úrkomulítið norðan- og austanlands, en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Hiti 1 til 9 stig yfir daginn, mildast suðvestantil.

Á sunnudag og mánudag: Norðaustan 5-13, skýjað og dálítil él, en bjartviðri sunnan- og vestantil. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag og miðvikudag: Norðlæg átt og dálítil snjókoma fyrir norðan, hiti um eða undir frostmarki. Bjart með köflum sunnan heiða og hiti 0 til 4 stig.

Á fimmtudag: Fremur hæg norðlæg átt, skýjað og dálítil snjókoma af og til fyrir austan, en að mestu bjart vestantil. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×