Fótbolti

Hætti við að hætta og samdi við Barcelona

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Szczesny settist í stúkuna í gær og sá Barcelona sigra Young Boys 5-0. Samningurinn var svo undirritaður í dag.
Szczesny settist í stúkuna í gær og sá Barcelona sigra Young Boys 5-0. Samningurinn var svo undirritaður í dag. Joan Valls/Urbanandsport/NurPhoto via Getty Images

Pólski markvörðurinn Wojciech Szczęsny lagði hanskana á hilluna fyrir um mánuði síðan en hefur hætt við að hætta og samið við spænska félagið Barcelona út tímabilið.

Szczęsny tilkynnti að hann væri hættur þegar Juventus rifti samningi hans þann 27. ágúst síðastliðinn. Hann hafði verið hjá félaginu síðan 2017, þrisvar orðið Ítalíumeistari og þrisvar bikarmeistari, þar áður var hann hjá Arsenal. Auk þess hefur Szczęsny varið mark Póllands í 84 landsleikjum og tekið þátt í fjórum Evrópumótum og tveimur heimsmeistaramótum.

Þegar hann tilkynnti að hann væri hættur sagði hann að líkaminn þoldi meira álag en hjartað væri ekki á réttum stað.

Barcelona hefur verið í markmannsleit eftir að Marc Andre Ter-Stegen meiddist illa á hné í leik gegn Villareal þann 22. september síðastliðinn. Iñaki Peña Sotorres hefur verið í markinu í þremur leikjum liðsins síðan þá.

Hjá Barcelona hittir Szczęsny samlanda sinn, Robert Lewandowski, sem hjálpaði til við að sannfæra hann um að taka hanskana af hillunni og var sá fyrsti til að hringja með hamingjuóskir þegar samningurinn var undirritaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×