Viðskipti innlent

Efla fjár­málin með Elfu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elfa Björg stýrir fjármálunum hjá Borealis Data Center.
Elfa Björg stýrir fjármálunum hjá Borealis Data Center.

Elfa Björg Aradóttir hefur verið ráðin í stöðu fjármálastjóra hjá Borealis Data Center, sem rekur gagnaver á þremur stöðum hér á landi og í Kajaani í Norður-Finnlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Elfa Björg er með víðtæka reynslu úr fjármálageiranum og starfaði áður sem fjármálastjóri Ístak þar sem hún studdi við hraðan vöxt félagsins síðastliðin níu ár. Áður en hún gekk til liðs við Ístak starfaði Elfa Björg í áratug hjá KPMG ehf. þar sem hún gegndi stöðu verkefnastjóra.

Elfa Björg er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík ásamt því að vera löggiltur endurskoðandi með meistaranám í reikningshaldi og endurskoðun frá sama skóla. Hún situr í stjórn LeiðtogaAuður sem er deild innan Félags kvenna í í atvinnulífinu (FKA).

„Ég er afar ánægður með að hafa fengið Elfu til liðs við Borealis Data Center. Sérþekking hennar á fjármálum fyrirtækja í örum vexti, umbótaverkefnum og uppbyggingu fjárhagsferla, mun reynast ómetanleg þar sem Borealis stefnir á frekari stækkun á starfsemi sinni hér á landi sem og erlendis“, segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center.

Borealis Data Center rekur rekur þrjú gagnaver hér á landi, á Blönduósi, Fitjum í Reykjanesbæ og á Korputorgi í Reykjavík og einnig í Finnlandi. Meðal viðskiptavina Borealis eru innlend og erlend fjármálafyrirtæki, netfyrirtæki, veitu- og innviðafyrirtæki, aðilar sem standa að rekstri gervitungla, lyfjaiðnaðurinn, bílaframleiðendur og upplýsingatæknifyrirtæki. Fyrirtækið hefur nýlega hlotið ISO 27001/18/17 vottanir fyrir gagnaverastarfsemi sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×