Innherji

Ræðst í fyrstu vaxta­lækkunina í fjögur ár sam­hliða minnkandi verð­bólgu­þrýstingi

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en peningastefnunefndin rétttlætir sína fyrstu vaxtalækkun í nærri fjögur á grundvelli vísbendinga um að farið sé að draga úr verðbólguþrýsingi með skýrum hætti.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en peningastefnunefndin rétttlætir sína fyrstu vaxtalækkun í nærri fjögur á grundvelli vísbendinga um að farið sé að draga úr verðbólguþrýsingi með skýrum hætti. Vísir/Arnar

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 25 punkta, fyrsta vaxtalækkun nefndarinnar frá árslokum 2020, samhliða því að undirliggjandi verðbólga hefur minnkað, verðbólguálág lækkað og merki um frekari kólnun í efnahagslífinu. Mikil óvissa var um hvers mætti vænta við vaxtaákvörðun nefndarinnar, fjárfestar og markaðsaðilar skiptust í tvær fylkingar hvort hún myndi hefja vaxtalækkunarferlið, en nefndin undirstrikar hins vegar að kröftug innlend eftirspurn kalli á „varkárni.“

Með ákvörðun peningastefnunefndar í morgun eru svonefndir meginvextir Seðlabankans komnir niður í níu prósent – eftir að hafa haldist í 9,25 prósent samfellt í þrettán mánuði – en síðast voru vextir lækkaðir á tímum faraldursins í nóvember 2020. Skömmu síðar, eða um vorið 2021, hóf Seðlabankinn bratt vaxtahækkunarferli sitt sem stóð yfir allt fram á haustið 2023.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar er vísað til þess að verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mælist núna 5,4 prósent, en án húsnæðis er hún 2,8 prósent. Verðbólgan hefur lækkað talsvert umfram væntingar greinenda síðustu tvo mánuði, eftir að hafa verið 6,3 prósent þegar peningastefnunefndin kom síðast saman í ágústmánuði.

„Þótt ákveðnir einskiptisliðir vegi þungt hefur dregið úr umfangi og tíðni verðhækkana. Undirliggjandi verðbólga hefur jafnframt minnkað og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Vaxtalækkunin er á skjön við spár greiningardeilda allra bankanna – Arion, Íslandsbanka, Kviku og Landsbankans – sem væntu þess að vöxtum yrði haldið óbreyttum. Könnun Innherja, framkvæmd í lok síðustu viku, sýndi hins vegar að markaðsaðilar og sjóðstjórar voru klofnir í afstöðu sinni. Þannig gerðu 10 þátttakendur ráð fyrir óbreyttum vöxtum á meðan jafn stór hópur reiknaði með vaxtalækkun. Þar af töldu fimm að bankinn ætti eftir að lækka vextina um 25 punkta en fjórir þátttakendur veðjuðu á 50 punkta vaxtalækkun – og einn taldi að lækkunin myndi verða 75 punktar.

Þeir sem væntu þess að nefndin myndi lækka vísuðu til þess að nefndin ætti engra annarra kosta völ, enda hefði flest fallið með henni frá síðasta fundi. „Verðbólgan er að koma mun hraðar niður en reiknað var með en einnig hafa verðbólguvæntingar á markaði lækkað síðustu daga. Þess vegna er mikilvægt fyrir bankann að hefja lækkun vaxta vilji hann halda trúverðugleika sínum. Annars endar hann eins og áttavilltur umrenningur í ógegnsærri holtaþoku,“ útskýrði einn þáttakandi í könnun Innherja sem spáði fyrir um lækkun vaxta.

Fram kemur í rökstuðningi peningastefnunefndar fyrir lækkun vaxta að áfram séu vísbendingar um að hægja sé á efnahagsumsvifum í takt við aukið peningalegt aðhald. Þá séu merki um að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði og svartsýni fyrirtækja og heimila jafnframt aukist.

„Þrálát verðbólga, verðbólguvæntingar yfir markmiði og mikil innlend eftirspurn kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma,“ undirstrikar nefndin í yfirlýsingu sinni.

Þótt ákveðnir einskiptisliðir vegi þungt hefur dregið úr umfangi og tíðni verðhækkana. Undirliggjandi verðbólga hefur jafnframt minnkað og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað.

Þá bætir hún við, rétt eins og áður, að mótun peningastefnunnar næstu misseri muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Þeir sem töluðu fyrir lækkun vaxta í könnun Innherja vísuðu einkum í hækkandi raunvaxtastig bankans á síðustu vikum. Það var í hæstu hæðum í ágústmánuði, þegar það mældist 4,2 prósent, en fór síðan enn hækkandi frá þeim tíma. Þá hefði tólf mánaða verðbólga og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað – það er niður um 30 til 130 punkta, mest á stutta endanum – sem þýði að aðhaldsstigið er vel umfram það sem nefndin telur vera nægjanlegt til að koma verðbólgu niður í markmið.

Mikil lækkun á verðbólguálaginu á skuldabréfamarkaði að undanförnu – munurinn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfa – hefur meðal annars verið drifin áfram af umtalsverðu fjármagnsinnflæði vegna kaupa erlendra sjóða á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum. Það hefur ýtt niður ávöxtunarkröfunni á slíkum bréfum.

Vaxtamunur Íslands við útlönd, bæði Bandaríkin og evrusvæðið, hefur enda farið enn hækkandi á síðustu mánuðum samhliða því að helstu seðlabankar heimsins hafa verið að lækka stýrivexti sína – og væntingar um frekari lækkanir hjá þeim.


Tengdar fréttir

Vaxta­lækkanir er­lendis „opna gluggann“ fyrir Seðla­bankann að fylgja á eftir

Með hjaðnandi verðbólgu og vaxtalækkunum erlendra seðlabanka að undanförnu er að „opnast gluggi“ fyrir Seðlabanka Íslands að fylgja í kjölfarið, að mati sérfræðings á skuldabréfamarkaði, en fjárfestar hér innanlands brugðust vel við stórri vaxtalækkun vestanhafs og ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfa féll nokkuð í morgun auk sem hlutabréfaverð hækkaði. Ólíkt stöðunni beggja vegna Atlantshafsins er verðbólgan hér á landi hins vegar enn fyrir utan vikmörk Seðlabankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×