Lífið

Já­kvæðni í al­gleymingi á Bylgjunni þessa vikuna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þórdís Valsdóttir forstöðumaður útvarps hjá Sýn.
Þórdís Valsdóttir forstöðumaður útvarps hjá Sýn. Vísir/Vilhelm

Jákvæðni verður í algleymingi á útvarpsstöðinni Bylgjunni í þessari viku þar sem nú fer fram sérstök jákvæðnivika. Spiluð verður jákvæðari tónlist og mun dagskrárgerðarfólk leggja sig fram um að segja frá jákvæðum fréttum og viðburðum og koma með góð ráð til þess að létta lundina.

„Ég held að það hafi ekki farið framhjá einum einasta landsmanni að undanfarið hafa dunið yfir okkur ömurlegar fréttir og mikil neikvæðni. Hræðilegir atburðir hafa átt sér stað í bland við erfiða efnahagsstöðu, stríðsrekstur víða um heim og þá staðreynd að það kom aldrei sumar. Nú er sólin farin að lækka og við ákváðum að reyna að létta andann aðeins,“ segir Þórdís Valsdóttir forstöðumaður útvarps hjá Sýn.

„Bragi Guðmundsson tónlistarstjóri Bylgjunnar tók lagalistann rækilega í gegn og alla vikuna munu hljóma léttari og bjartari tónar því tónlist getur svo sannarlega haft áhrif á skapið!“

„Mottó Bylgjunnar er Bylgjan – Björt og brosandi. Okkar eina von er sú að ef við leggjum okkur fram við að vera björt og brosandi þá muni það hafa keðjuverkandi áhrif og hjálpa til við að græða þjóðarsálina, ef svo má að orði komast, og ýta undir það að allir líti á björtu hliðarnar.“

„Það er magnað að segja frá því að frá því að þessi hugmynd fæddist þá hefur andinn á gólfinu farið lóðbeint uppávið, bara með því að ræða jákvæðni þá hefur lundin orðið léttari og vonandi á það líka við um hlustendur.“

Vísir er í eigu Sýnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×