Fótbolti

Krafta­verk hjá Mbappé sem kannski spilar á morgun

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé virðist hafa náð ævintýralega hröðum bata.
Kylian Mbappé virðist hafa náð ævintýralega hröðum bata. Getty/Denis Doyle

Kylian Mbappé er afar óvænt í leikmannahópi Real Madrid sem ferðast til Frakklands og spilar þar við Lille í Meistaradeild Evrópu í fótbolta á morgun.

Mbappé meiddist í læri í deildarleik gegn Alaves fyrir rúmri viku og var þá talað um að hann yrði frá keppni í um þrjár vikur.

Hann missti af Madridarslagnum á sunnudagskvöld þegar Real og Atlético Madrid gerðu 1-1 jafntefli í leik þar sem ólæti áhorfenda vörpuðu skugga á leikinn.

Nú er útlit fyrir að það gæti orðið eini leikurinn sem Mbappé missir af vegna meiðslanna. 

Samkvæmt Marca kom í ljós að meiðslin væru ekki eins alvarleg og í fyrstu var talið, og Mbappé verður því með á æfingu í Frakklandi í dag, öfugt við markvörðinn Thibaut Courtois sem meiddist gegn Atlético og verður líklega ekki með aftur fyrr en eftir landsleikjahléið sem hefst eftir viku.

Samkvæmt frétt Relevo ætla Madridingar að fara varlega með Mbappé en ef vel gengur á æfingu í dag er samt ekki útilokað að hann byrji leikinn gegn Lille. 

Real á svo eftir deildarleik við Villarreal á laugardaginn áður en við tekur landsleikjahlé. Næsti leikur eftir það er við Celta Vigo 19. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×