Fótbolti

Ætla að snið­ganga leikinn við Víking

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stuðningsmenn LASK ætla ekki að láta bjóða sér miðaverð félagsins á leiki vetrarins.
Stuðningsmenn LASK ætla ekki að láta bjóða sér miðaverð félagsins á leiki vetrarins. Harald Dostal/SEPA.Media /Getty Images

Stuðningsmenn austurríska fótboltaliðsins LASK frá Linz eru allt annað en ánægðir með miðaverð á heimaleiki liðsins í Sambandsdeild karla í fótbolta. Þar á meðal er leikur við Íslandsmeistara Víkings í desember.

Hörðustu stuðningsmenn LASK stefna á að sniðganga heimaleiki liðsins ef miðaverð á Evrópuleiki félagsins helst óbreytt.

LASK rukkar 68 evrur fyrir miða í stúkurnar á hliðarlínum vallarins, sem jafngildir rúmlega 10 þúsund íslenskum krónum. Ódýrasta leiðin til að sjá alla þrjá heimaleiki LASK, við Djurgarden á fimmtudag, Cercle Brugge í nóvember og Víking í desember er að greiða 112 evrur, eða tæplega 17 þúsund krónur.

Stuðningsmenn LASK eru allt annað en sáttir, sér í lagi í því ljósi að miðar á leiki hjá öðru austurrísku liði í Sambandsdeildinni, Rapid Vín, kosta um helmingi minna en miðar á leiki LASK.

Fyrsti heimaleikur liðsins er, líkt og áður segir, við Djurgarden á fimmtudaginn kemur. Víkingur hefur leik í keppninni á fimmtudag er liðið sækir Omonia heim til Kýpur.

Leikur Víkings og Omonia er klukkan 16:45 á fimmtudag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×