Fréttir

Stefnir í sögu­legan sigur hægriöfgaflokks í Austur­ríki

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins á kosningafundi. Flokknum er spáð sögulegum sigri.
Herbert Kickl formaður Frelsisflokksins á kosningafundi. Flokknum er spáð sögulegum sigri. gett

Allt bendir til þess að Frelsisflokkurinn, sem lýst hefur verið sem hægriöfgaflokki, landi sögulegum sigri í austurrísku þingkosningunum sem fara fram á morgun. 

Flokkurinn sat í ríkisstjórn sem sprakk fyrir fimm árum vegna svokallaðs Ibiza-skandals, þar sem upp komst um tilraunir þingmanns Frelsisflokksins til að fá greiða úr hendi rússnesks ólígarka, í skiptum fyrir pólitíska greiða.

Nú hefur flokkurinn hins vegar snúið blaðinu við og mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninganna sem fara fram á morgun. Frelsisflokkurinn mælist með 28 prósenta fylgi, tveimur prósentustigum meira en íhaldsflokkurinn Austurríski fólksflokkurinn, sem leiðir ríkisstjórn nú. 

„Líkurnar hafa aldrei verið meiri,“ segir í einu auglýsingamyndbanda Frelsisflokksins. „Sem volkskanzler (kanslari fólksins) mun Herbert Kickl gera allt til þess að veita ykkur frelsið á ný, öryggið, velmegun og frið... Byggjum Austurríkisvirkið!“

Frelsisflokkurinn hefur talað fyrir hertri innflytjendalöggjöf breytingu á nálgun í Úkraínustríði og verðbólguátaki. Þá hefur flokksforysta agnúast út í viðbrögð stjórnvalda við Covid-faraldri.

Í umfjöllun BBC kemur fram að notkun formannsins Herbert Kickl á orðinu volkskanzler hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum austurríkismönnum, þar sem það hafi verið notað af Adolf Hitler á fjórða áratug síðustu aldar. Vísunin þyki óþægileg áminning um uppruna flokksins sem var stofnaður af fyrrverandi nasistum á sjötta áratugnum. Mótmælendur fyrir utan kosningafund Frelsisflokksins á föstudag mættu til að mynda með skilti sem stóð á „nastistar af þingi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×