Sport

Býðst til þess að gefa þjófnum gullið í arf

Sindri Sverrisson skrifar
László Csongrádi með ólympíugullið sem er honum svo kært. Nú hefur því verið stolið.
László Csongrádi með ólympíugullið sem er honum svo kært. Nú hefur því verið stolið. Facebook/Tamás Kovács

Ungverjinn László Csongrádi hefur í örvæntingu sinni boðist til þess að arfleiða innbrotsþjóf að ólympíugullinu sem hann vann á sínum tíma.

Csongrádi, sem er 65 ára gamall, vann gull í skylmingum í Seúl árið 1988. Gullmedalíuna geymdi hann í skáp á heimili sínu en hún er nú horfin eftir að innbrotsþjófur braust inn þegar Csongrádi var sofandi, og stal henni.

Csongrádi er að sjálfsögðu miður sín yfir að hafa misst sína dýrmætustu eign.

„Síðustu tvær vikur hef ég ekki verið með sjálfum mér, og ekki getað róað mig og verið glaður því allt minnir mig á ólympíugullið mitt sem var stolið,“ sagði Csongrádi við ungverska miðilinn Sportal.

„Ég myndi gefa sökudólgnum hvað sem er. Ég vil bara að hann skili þessum hlut sem hefur enga merkingu fyrir hann. Settu hann í póstkassann og ef þú vilt þá skal ég ekki eftirláta safni verðlaunin heldur arfleiða þig að þeim,“ sagði Csongrádi.

Hann var eins og fyrr segir sofandi þegar þjófurinn braust inn en sá var fljótur að láta sig hverfa þegar Csongrádi vaknaði og kallaði til hans.

„Hann hefði getað tekið aðra dýrmæta hluti en einhverra hluta vegna hafði hann mestan áhuga á þessu. Þjófurinn snerti margt og það var fjöldi fingrafara en það hefur ekki dugað til að finna hann. Ég veit ekki hvað ég get gert til að ná til hans. Ég vil ekki valda honum skaða, hann getur alveg samið við mig,“ sagði Csongrádi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×